Regluleg laun1 voru að meðaltali 635 þúsund krónur á mánuði árið 2021. Ef eingöngu er horft til launafólks í fullu starfi voru regluleg laun að meðaltali 711 þúsund krónur og miðgildið var 637 þúsund krónur. Fleira launafólk (63%) er því með regluleg laun undir meðaltali en yfir. Það skýrist meðal annars af því að hæstu laun hækka meðaltalið þar sem kjarasamningar tryggja ákveðin lágmarkskjör en kveða ekki á um hámarkskjör.
Heildarlaun fólks í fullu starfi voru að meðaltali 823 þúsund krónur árið 2021 og var tæplega fjórðungur með heildarlaun undir 600 þúsund krónum. Þá var tæplega helmingur karla með heildarlaun yfir 800 þúsund krónum á mánuði en tæplega þriðjungur kvenna. Að jafnaði voru karlar í fullu starfi með fleiri greiddar vinnustundir en konur í fullu starfi og voru greiddar stundir að baki heildarlaunum karla að meðaltali 180,7 stundir á mánuði árið 2021 en greiddar stundir kvenna 173,8 stundir. Fleiri greiddar stundir að jafnaði hjá körlum skýrir að hluta til hærri heildarlaun þeirra.
Forstjórar og aðalframkvæmdastjórar fyrirtækja og stofnana með hæstu launin
Sé horft til einstakra starfa2 voru forstjórar og aðalframkvæmdastjórar fyrirtækja og stofnana að jafnaði með hæstu launin eins og verið hefur síðustu ár eða rúmlega tvær milljónir króna að meðaltali á mánuði árið 2021. Dómarastörf, sérfræðistörf við lækningar, sérfræðistörf tengd ráðgjöf og sölu verðbréfa, sérfræðistörf tengd skipa- og flugsamgöngum og störf æðstu embættismanna ríkis og sveitarstjóra eru dæmi um störf þar sem heildarlaun eru að meðaltali 1,5 milljón krónur eða hærri á mánuði. Lægstu heildarlaunin voru hins vegar í störfum tengdum barnagæslu, eða 471 þúsund krónur á mánuði, og í skrifstofustörfum við bóka- og skjalavörslu, póstflokkun, kótun o.þ.h. þar sem laun voru að jafnaði um 484 þúsund krónur á mánuði.
Dreifing heildarlauna minnst hjá skrifstofufólki
Heildarlaun starfsstétta árið 2021 voru á bilinu 582 til 1.285 þúsund krónur á mánuði, lægst að meðaltali hjá verkafólki en hæst hjá stjórnendum. Dreifing heildarlauna er nokkuð mismunandi eftir starfsstéttum, sem getur skýrst af ólíkum störfum innan einstakra starfsstétta. Það á við um stjórnendur en í þeim hópi er að finna bæði æðstu stjórnendur fyrirtækja og yfirmenn deilda. Þannig var um helmingur stjórnenda með heildarlaun á bilinu 800 til 1.300 þúsund krónur á mánuði meðan um helmingur verkafólks var með heildarlaun á bilinu 400 til 650 þúsund krónur.
Árið 2021 var dreifing heildarlauna minnst hjá skrifstofufólki og algengast var að heildarlaun þeirra væru á bilinu 600 til 650 þúsund krónur og voru um 17% skrifstofufólks með heildarlaun á því bili. Tæplega fjórðungur iðnaðarmanna var með heildarlaun yfir eina milljón króna á mánuði og einn af hverjum þremur í starfsstéttinni sölu- og afgreiðslufólk var með heildarlaun undir 500 þúsund krónum á mánuði. Einn fimmti hluti tækna og sérmenntaðs starfsfólks var með heildarlaun á bilinu 650 til 750 þúsund krónur á mánuði og rúmlega fjórðungur sérfræðinga var með heildarlaun undir 700 þúsund krónum.
Nánar um niðurstöður
Hagstofan birtir samræmda tímaröð fyrir árin 2014-2021 með upplýsingum um laun starfsstétta, launaþegahópa og einstakar atvinnugreinar. Í talnaefninu er einnig að finna upplýsingar um rúmlega 200 störf launafólks í fullu starfi þar sem birt eru nokkur launahugtök auk dreifinga fyrir hvert starf.
Áður birtar niðurstöður fyrir árið 2020 hafa verið endurskoðaðar. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður sem byggja á launagögnum Hagstofunnar sem ná til rúmlega 94 þúsund launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöður byggja á fyrirtækjarannsókn launagreiðenda með 10 starfsmenn eða fleiri og nær til stærsta hluta vinnumarkaðarins. Nánar um þekju rannsóknar, skilgreiningar og lýsingar á aðferðum má finna í lýsigögnum á vef Hagstofunnar.
Stytting vinnuvikunnar, sem samið var um í kjarasamningum árin 2019 og 2020, hefur ekki áhrif á mánaðarlaun þar sem laun haldast óbreytt þó að vinnustundum að baki mánaðarlaunum fækki. Stytting vinnuvikunnar kom að mestu til framkvæmda árið 2020 á almennum vinnumarkaði en árið 2021 hjá hinu opinbera. Auk breytinga á vinnutímaákvæðum í kjarasamningum er einnig heimild til þess að þjappa vinnudeginum saman sem um nemur kaffitímum og ef heimildin er nýtt hefur sú breyting einnig áhrif á greiddar stundir. Frá 2019 hefur greiddum stundum fækkað sem bæði má rekja til styttingar vinnuviku og fækkunar yfirvinnustunda.