„Ég mun ræða við mitt fólk hjá Prestafélagi Íslands um það í hvaða stöðu ég er settur. Það mál er á það viðkvæmu stigi að það væri óskynsamlegt að tala mikið um það í fjölmiðlum fyrr en að loknum þeim samtölum.“ Segir séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju í viðtali við Mbl.is. Hann telur hörð ummæli sín um þinglið og ráðherra Vinstri grænna ekki koma því við að formaður flokksins og forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sé fyrrverandi sambúðarkona hans.
Bjó aldrei með forsætisráðherra
,,Það hefur vakið athygli að þið Katrín Jakobsdóttir voruð einu sinni par. Hafa þessi ummæli þín eitthvað með það að gera?“ spurði blaðamaður Davíð Þór Jónsson, sem svaraði: „Vitur maður mælti forðum, það eru skiptar skoðanir um nákvæmlega hver það var en hann sagði: stórar sálir tala um hugmyndir, miðlungs sálir tala um atburði, smásálir tala um persónur.
Umræðan ætti að snúast um það hvernig við sem samfélag komum fram við okkar minnstu bræður og systur. Ef að einhverjum finnst að sú umræða eigi að snúast um það hvernig tilfinningalífi mínu var háttað fyrir 20 árum…jah þá vitum við hversu stór sálin í því fólki er,“ segir Davíð og bætir við:
„Þar fyrir utan þá bjó ég aldrei með forsætisráðherra Íslands, það var allt önnur manneskja.“ Segir í fréttinni.
Ummælin dæmi sig sjálf
Katrín hefur sagt í fjölmiðlum að yfirlýsing Davíðs Þórs um flokksmenn Vinstri græna dæmi sig sjálf.
Davíð Þór svaraði athugasemd Katrínar, „Jesús: Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Höggormar og nöðrukyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm? Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn.
Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg. Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð sem úthellt hefur verið á jörðinni,“ sagði Davíð Þór í Facebook-færslu og bætti við: „Farísei: Þessi orð dæma sig sjálf.“
https://gamli.frettatiminn.is/24/05/2022/serstakur-stadur-i-helviti-fyrir-folk-sem-selur-sal-sina-fyrir-vold-og-vegtyllur/
https://gamli.frettatiminn.is/26/05/2022/helviti-er-nu-thegar-i-miklu-studi-her-a-jordu-bubbi-kemur-david-thor-til-varnar/
https://gamli.frettatiminn.is/18/04/2022/eldraeda-sera-davids-myndband/