Tvo umferðarslys urðu á höfuðborgarsvæðinu í dag. Hið fyrra átti sér stað á Reykjanesbraut um hádegisbil en þar féll bifhjólamaður með þeim afleiðingum að hann slasaðist. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Einhver tjón urðu á ökutækjum vegna atviksins. Seinna slysið átti sér stað um kl. 14:00 í Múlahverfinu en þá féll ökumaður rafhlaupahjóls eftir að hafa ekið ofan í ræsi. Ökumaður fékk aðhlynningu hjá sjúkraflutningsmönnum.
Í tveimur tilfellum hafa ökumann verið handteknir vegna vímuaksturs. Fyrra tilvikið átti sér stað í Múlahverfinu laust eftir eitt í dag en ökumaður reyndist vera undir áhrifum lyfja og jafnframt sviptur ökuréttindum. Síðara tilvikið var laust fyrir kl.14:30 á Sæbraut en ökumaður var undir áhrifum fíkniefna, sviptur ökuréttindum. Bifreiðin var líka á nagladekkjum.
Einn var kærður fyrir hraðakstur á Bústaðavegi laust eftir átta í morgun. Hraði bifreiðarinnar mældist 83km/klst þar sem hámarkshraði var aðeins leyfður 50km/klst.
Um hálf níu í morgun varð sprenging í Hafnarfirði með þeim afleiðingum að um tugur ökutækja varð fyrir skemmdum og skemmdir urðu á einhverjum vinnuvélum. Ástæða fyrir sprengingunni var sú að var verið að vinna við fleygun í klöpp en í henni leyndist ósprungið dýnamít. Mikil mildi var að enginn slasaðist en ekki mátti miklu muna. Um 30 ökumann hafa verið kærðir í dag fyrir að aka á nagladekkjum.