Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir í umræðum á Alþingi að hann gæti ekki stutt frumvarp Vinstri grænna sem Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra hefur lagt fram um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelginni. Þar sem rýmkaðar eru heimildir til magnveiða togara til veiða á grunnslóð með tilheyrandi raski á lífríki sjávar.
Teitur Björn vitnaði meðal annars til speki úr sveitum landsins, um að ekki mætti fella girðingar nema vita til hvers hún var upphaflega reist og hvaða afleiðingar það myndi hafa að fella hana. Það sagði Teitur að höfundar þessa frumvarps hefðu ekki gert. Í þeirri myndlíkingu er þingmaðurinn að benda á að sú stefna hafi orðið ofan á að taka orkuskipti fram yfir lífríki hafsins.
Verulegir ágallar á lagafrumvarpi
Þá sagði Teitur Björn Einarsson að takmörkun togara á grunnslóð hafi alltaf verið í gildi í lögum síðustu 40 til 50 ár og að grunnslóð væri mjög takmörkuð og hentaði ekki til magnveiða öflugra togskipa. Það væru hin einföldu sannindi í þessu máli og jafnframt að ekki hefði verið leitað álits fiskifræðinga um hvaða áhrif slíkar magnveiðar hefðu á fiskistofnana og að það væru verulegir ágallar á þessu lagafrumvarpi.
Teitur Björn sagði að frumvarpið myndi breyta gerð og stærð fiskiskipa á grunnslóð sem yrðu eftir samþykki laganna, 41,99 metra löng skip og með mestu mögulegu breidd og vélarafl sem og draga togveiðarfæri á botni á grunnslóð. ,,Til þess er leikurinn gerður.“
Frumvarpið í hróplegu ósamræmi við stefnu Vinstri grænna og þvert á ályktanir flokksins
Mótmæla harðlega öllum hugmyndum um aukna sókn togskipa innan 12 sjómílna
Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur mótmælt harðlega öllum hugmyndum um aukna sókn togskipa innan 12 sjómílna fiskveiðilandhelginnar. Sigurjón Þórðarson, Flokki fólksins skoraði á matvælaráðherra að draga frumvarpið til baka. Frumvarp sem heimilar togurum að veiða með troll á hafsvæðum upp við fjörur landsins, alveg upp við land eða aðeins fimm kílómetra frá landi.
Þá sé frumvarpið í hróplegu ósamræmi við stefnu Vinstri grænna og þvert á ályktanir flokksins á landsfundi hans um verndun lífríkis hafsins. Þá sé þrengt að vistvænum strandveiðum með því að hleypa öflugum óvistvænum skipum á grunnslóð, nánast upp í fjöru.
Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru nauðsynlegar en þær mega ekki vera á kostnað líffræðilegs fjölbreytileika og lífríkis hafsins
Í nefndaráliti frá minnihluta atvinnuveganefndar um frumvarpið um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (aflvísir), segir:
Minni hluti atvinnuveganefndar fagnar því að unnið sé að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í sjávarútvegi, en með stærri skrúfu má draga verulega úr orkunotkun eða allt að helmingi. Sá ávinningur sem af orkuskiptum fæst má þó ekki vera á kostnað annarra mikilvægra þátta, svo sem lífríkis hafsins.
Reglur um stærðarmörk fiskiskipa hafa þróast yfir langan tíma og oftar en ekki á grundvelli málamiðlunar milli ólíkra sjónarmiða, svo sem hvað varðar veiðisvæði, tegund veiðarfæra, tegundir fiskiskipa og byggðafestu. Að afnema aflvísinn með öllu er því stórt skref sem ekki má stíga að vanhugsuðu máli. T.d. þarf að meta áhrif þess að aukin toggeta veldur því að skip geta dregið tvö troll, en ekki eitt. Þetta gerir það að verkum að meira kolefni losnar úr sjónum og áhrif á hafsbotninn aukast, til að mynda á setlög.
Þess má geta að Landssamband smábátaeigenda leggst eindregið gegn frumvarpinu þar sem bein afleiðing af samþykkt þess er að þyngja sókn nær landi með togveiðarfærum, því afkastameiri skip mega stunda veiðar nær landi en er heimilt samkvæmt núgildandi lögum. Minni hlutinn telur andvaraleysi meiri hlutans gagnvart mögulegum afleiðingum frumvarpsins varhugavert því að lífríkið er viðkvæmt fyrir öllu raski og ófyrirséð hvaða afleiðingar aukin sókn hefur. Vitað er að notkun trolls og dragnótar getur valdið auðn á miðum nærri landi, t.d. virðast hrygningarstofnar þorsks ekki hafa borið þess bætur sl. 40 ár. Þess má geta að samþykkt var á vettvangi samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika (e. Conference of the Parties 15 – Convention on Biological Diversity) að stefna beri að því að 30% hafsvæða njóti verndar árið 2030, en við eigum enn langt í land.
Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru nauðsynlegar en þær mega ekki vera á kostnað líffræðilegs fjölbreytileika og lífríkis hafsins. Minni hlutinn leggst því gegn frumvarpinu að svo stöddu.
Fótspor við veiðar á einu kílói þorsks á smábátum að meðaltali þriðjungur þess sem það mælist við togveiðar
Landssamband smábátaeigenda hefur einnig ítrekað bent á þau sjónarmið sem koma fram í ræðu Teits Björns Einarssonar og sent inn umsögn um frumvarpið:
LS hefur kynnt sér framkomið frumvarp. Í fyrri umsögn frá 31. ágúst sl segir m.a.: „Landssamband smábátaeigenda (LS) mótmælir harðlega öllum hugmyndum um aukna sókn togskipa innan 12 sjómílna fiskveiðilandhelginnar.“ LS gaf öðru sinni umsögn um sama efni í Samráðsgátt þann 4. nóvember 2022, en þá
var málefnið kynnt sem drög að frumvarpi. Þar sagði m.a.: LS harmar að ekki sé í frumvarpinu komið til móts við sjónarmiðfélagsins og telur óbreytt frumvarp vera aðför að veiðum og útgerð smábáta.
Að óbreyttu verður frumvarpið til þess að þyngja sókn nær landi með togveiðarfærum. Það er gert á sama tíma og Hafrannsóknastofnun stendur ráðþrota yfir því að stórir hrygningarstofnar þorsks hafi ekki skilað góðri nýliðun sl. fjörutíu ár. Óumdeilt er að á þeim slóðum sem lagt er til að auka skuli sókn með togveiðaifærum er lífríkið viðkvæmt fyrir öllu raski.
Engu líkara en sú stefna hafi orðið ofan á að taka orkuskipti fram yfir lífríki hafsins. LS gagnrýnir þá stefnu harðlega. LS vekur jafnframt athygli á að samkvæmt skýrslu MATÍS frá 2014 er fótspor við veiðar á einu kílói þorsks á smábátum að meðaltali þriðjungur þess sem það mælist við togveiðar. Enginn vafi leikur því á að hafistjórnvöld hug á að að draga úr brennslujarðefnaeldsneytis við veiðar er aukin hlutdeild smábáta í veiðum svarið.
Ástæða þess á sínum tíma að lögfest var 12 mílna fiskveiðilandhelgi var sú að menn höfðu þá þegar áttað sig á skaðsemi afkastamikilla botndreginna veiðarfæra. Notkun trolls og dragnótar skilur iðulega eftir sig auðn á miðum nærri landi. Þetta er löngu þekkt, hér við land sem annarsstaðar. Sú spurning hlýtur að vakna hvort Hafrannsóknastofnun hafi ekkert við slíkar breytingar að athuga og hvort hennar umsagnar hafi verið óskað. Markmið frumvarpsins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Hinn 17. mars 2021 var birt ritrýnd grein í vísindatímaritinu Nature (sjá viðhengi) um gríðarlega losun CO2 við notkun botndreginna veiðarfæra. Svo virðist sem stjórnvöld og vísindasamfélagið kjósi að leiða þetta hjá sér.
Magnús Jónsson formaður Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar og fv. veðurstofustjóri vakti athygli á greininni í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.
Án þess að LS vilji um það fullyrða verður að telja líklegra en hitt að við það að hleypa togskipum inn á svæði sem hafa verið í friði um langa hríð verði losunin mun meiri en þar sem togveiðarfæri hafa verið brúkuð í hartnær heila öld. LS skorar á stjórnvöld að forgangsraða í þessum efnum. Félagið hefur til áratuga lagt til að umhverfisáhrif veiðarfæra verði rannsökuð rækilega. Það er vægt til orða tekið að lítið hafi gerst á því sviði. Hvers vegna er óskiljanlegt.
LS er sannfært um að í framtíðinni munu veiðiaðferðir og áhrif þeirra á vistkerfi hafrýmisins vega þyngra en flest annað við nýtingu fiskistofna. Ísland er ekki að setja sig í fremstu röð með því að auka heimildir togskipa til að skarka upp við land. Þvert á móti.