Talsverður erill var hjá lögreglunni í gærkvöldi og nótt, rúmlega sextíu mál voru skráð hjá lögreglu frá klukkan 17:00 til 05:00. Hér að neðan eru nokkur þeirra mála sem komu inn á borð lögreglu
Ekið var á reiðhjólamann í miðbænum, ekki vitað um meiðsli hjá manninum. Þá féll maður á andlitið á sömu slóðum og var með áverka í andliti eftir fallið, hann fluttur á slysadeild til frekari skoðunar.
Ölvaður ökumaður stöðvaður í miðbænum eftir að hafa ekið á tvær bifreiðar og ekið á brott, maðurinn vistaður í fangaklefa og bíður skýrslutöku þegar af honum rennur. Maður var handtekinn í vesturbænum, þar sem hann var að stela úr verslun í hverfinu, þegar öryggisvörður stöðvaði manninn réðst maðurinn á öryggisvörðinn. Að lokum náðist að yfirbuga manninn og var hann vistaður í fangaklefa vegna málsins.
Bifreið var stöðvuð í austurbænum og reyndist þar vera á ferðinni 14 ára drengur á rúntinum með fjóra jafnaldra sína en drengurinn hafði tekið bifreiðina ófrjálsi hendi.
Ekið var á þrettán ára dreng á vespu í Garðabæ, engin slys urðu en lítilsháttar skemmdir á vespunni.
Lögregla aðstoðaði mann í Kópavogi þar sem hann var ofurölvi á reiðhjóli og hafði fallið á höfuðið, eftir að sjúkraflutningamenn höfðu skoðað manninn var honum og hjólinu ekið heim enda maðurinn ekki í nokkru ástandi til að koma sér heim stórslysalaust.
Tilkynnt um ofurölvi konu sem þar sem hún lá á bifreiðastæði í úthverfi Kópavogs, konan aðstoðuð og komið í hendur aðstandanda sem kom henni í húsaskjól.
Lögreglu barst tilkynning um tveir þrettán ára krakka sem höfðu klifrað upp á þak á skólabyggingu í Smárahverfi. Þegar krakkarnir voru komnir upp á þak vildi ekki betur til að stigi sem krakkarnir höfðu notað datt og komust þau ekki niður. Þegar lögregla kom á svæðið var móðir annars krakkans komin á staðinn til að bjarga þeim úr þessum hremmingum.
Tilkynnt var um mann í annarlegu ástandi þar sem hann var sofandi í rútu í Grafarvogi. Maðurinn var vakinn af værum blundi og kom þá í ljós að maðurinn var eftirlýstur, hann fluttur á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa.