Svandís Svavarsdóttir gaf sér góðan tíma til þess að tala um smábátasjómenn við Gísla Martein á RÚV í dag, en hefur enn sem komið er engan tíma til þess að tala við fulltrúa Landssamband Smábátaeigenda eða hvað þá við fulltrúa Strandveiðifélags Íslands um tillögur sínar sem snúa að strandveiðum.
Það er óneitanlega ósmekklegt að ráðamaður sé stöðugt að tala um fólkið sem hún neitar að tala við – það er eins og það er! Verra er að hún virðist ekki hafa sett sig inn í málaflokkinn og er að éta upp einhverja innihaldslausa frasa SFS og hefur síðan greinilega misskilið eitt og annað t.d. telur hún ef marka má viðtalið, að stór þorskur sé á einhverri hringferð í kringum landið!
Gísli fræddi þjóðin með einhverju „hotteiki“ sem Svandís var ægilega ánægð með en það var eitthvað á þá leið að það væri miklu hagkvæmara að láta Samherja veiða fisk en smábáta: ,,Fyrir hvern þorsk sem er veiddur við vitum bara að Samherji mun veiða einhvern þorsk rosaleg hagkvæmt og íslenska þjóðarbúið græðir meira“ en ef sjarmerandi trillukarl í lopapeysu, myndi veiða þorskinn!
Svandís bætti um betur bar fram sína Stalínísku kenningu um fiskveiðar á Íslandsmiðum þar sem hún hélt því fram að mesta mögulega virði fyrir hagkerfið á Íslandi næðist ef eitt fyrirtæki myndi sjá um allar veiðar á Íslandsmiðum.
Hvorki Gísli Marteinn né Svandís Svavarsdóttur virðast hafa heyrt þess getið að afli smábáta á markaði er mun hærra verðlagður en það sem stórútgerðin treystir sér að verðleggja sama fisk inn í sínar „hagkvæmu“ vinnslur og ekki heldur að drjúgur hluti af verðmætum sem fást fyrir helstu útflutningsgrein þjóðarinnar verða eftir í gervisölufélögum í skúffum í skattaskjóllum og skila sér ekki til landsins.
Umræðan á Rás 2 ljóstraði upp um vanþekkingu þáttarstjórnenda á RÚV á undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, en verra var að fá það beint í æð að matvælaráðherra yfirtrompaði Gísla Martein í dellunni.