Sæludagar ríkisstjórnar senn á enda
Ríkisstjórnin hefur siglt lygnan sjó fram að þessu en nú eru sæludagar hennar senn á enda. Framundan eru kjarasamningar, sem að óbreyttu verða þeir hörðustu, sem hér hafa orðið, sennilega í meira en þrjá áratugi.
Til þess að svo verði ekki þarf ríkisstjórnin að gefa til kynna að hún sé opin fyrir því, sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði í samtali við RÚV um helgina, að það þyrfti að koma til „einhver sátt, dýpri sátt“ í tengslum við launahækkanir stjórnmálamanna og æðstu embættismanna.
Enn hefur ekkert komið fram af hálfu ríkisstjórnar, sem bendir til að hún sé opin fyrir slíkum hugmyndum og ekki að sjá að þar sé nokkur munur á milli einstakra stjórnarflokka, alla vega ekki út á við.
Það er hins vegar mikilvægt fyrir alla aðila að slík sátt náist vegna þess að vandamálin á sviði efnahags- og atvinnumála, sem framundan eru verða erfið úrlausnar og ekki á þau bætandi með stórfelldum átökum á vinnumarkaði.
Guardian: Þegar sænska elítan missti tengslin við fólkið
Á vefsíðu Guardian um þessa helgi má finna grein eftir mann að nafni Andrew Brown, sem bersýnilega hefur alizt upp í Svíþjóð og skrifað minningar sínar í bók sem nefnist Fishing in Utopia, en fyrir hana fékk hann svonefnd Orwell verðlaun.
Í grein þessari staðhæfir höfundur að Svíþjóðardemókratar, sem eru hinn nýi flokkur lengst til hægri í sænskum stjórnmálum hafi blómstrað vegna þess að sænska elítan hafi misst tengslin við fólkið í landinu. Hann færir ákveðin rök fyrir máli sínu, sem eru í grundvallaratriðum þau að í Svíþjóð hafi jafnan ríkt meira stjórnlyndi en almennt á Vesturlöndum en slíkt kerfi leiði jafnan til þess að fólkið á toppnum heyri bara það sem það vilji heyra og missi smátt og smátt tengslin við veruleikann.
Getur verið að þetta sé skýringin á sama fyrirbæri hér, þegar stjórnmálamenn í öllum flokkum virðast ekki skilja, að þeir geti ekki tryggt sjálfum sér margra tuga prósenta launahækkun en segi jafnframt öðrum launþegum að fái þeir það sama fari efnahagslífið á hvolf?“ Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins, um málefni líðand stundar.