Atlantic Superconnection segir í nýrri frétt að sæstrengsverkefni milli Íslands og Bretlands sé tilbúið og fullfjármagnað. Einungis vanti grænt ljós frá breskum stjórnvöldum, en hvað Ísland varði, sé allt klappað og klárt
Íslensk stjórnvöld ætla að þvinga orkupakka þrjú í gegnum þingið á næstu dögum. Annað hvort trúa þau sjálf vitleysunni sem þau halda fram um hversu neytendavænn pakkinn sé og engin hætta á að sæstrengur verði lagður til landsins, eða þau eru vísvitandi að reyna að blekkja íslenskan almenning.
Ég las í gær færslu á facebooksíðu Sigríðar Andersen þar sem hún segist ekki hafa getað fundið neitt í pakkanum til hagsbóta fyrir Íslendinga og segist telja að enginn þingmaður hafi látið sér detta í hug að innleiða hann nema vegna EES samningsins. Ég tek ofan fyrir henni að koma hreint fram öfugt á við marga aðra styðjendur pakkans, en því miður held ég að hún eins og aðrir stjórnarliðar ætli samt sem áður að ljá pakkanum atkvæði sitt.
Í þeim tilgangi að vernda EES samninginn sem búið er með hræðsluáróðri að telja alltof mörgum þingmönnum trú um að gæti verið í hættu ef við nýtum okkur ákvæði samningsins sjálfs og annað hvort höfnum pakkanum eða vísum honum aftur til sameiginlegu EES nefndarinnar til að fá varanlega undanþágu.
Til að réttlæta samþykkt pakkans hafa helstu rökin verið þau að það verði að samþykkja hann vegna þess að okkur beri að innleiða hann eins og aðrar gjörðir sem sameiginlega EES nefndin hefur samþykkt, við séum þegar búin að innleiða pakka eitt og tvö og þessi pakki sé einfaldlega eðlilegt framhald af þeim. Það sé hvort eð er ekkert í honum sem skipti neinu máli fyrir okkur, hann snúist fyrst og fremst um neytendavernd.
Og hvað felst svo í þessari neytendavernd? Frelsi til að velja milli birgja, sem við höfum nú þegar og skiptir okkur litlu máli. Gagnsæi þannig að við getum skoðað orkuverðið, já ég er einmitt tilbúin til að afsala mér auðlindum landsins og greiða hærra orkuverð til þess eins að geta skoðað það, eða hitt þó heldur. Aukið sjálfstæði Orkustofnunar til að hafa eftirlit með orkufyrirtækjum og gæta þess að farið sé að leikreglum. Hvaða leikreglur eru það?
Semsagt leikreglur sem ESB setur og hið meinta sjálfstæði er einungis sjálfstæði frá íslenskum stjórnvöldum og íslenskum kjósendum, því sjálfstæði Orkustofnunar mun á engan hátt aukast, hún færist undir boðvald ACER í staðinn, sem ESB stýrir. Orkustofnun mun bera að sjá til þess að ákvæðum orkutilskipunarinnar sé fylgt og stefnu ESB í orkumálum. Það er nú allt sjálfstæðið.
Fullyrt hefur verið að ekki verði hægt að leggja sæstreng til Íslands nema Alþingi samþykki það áður. Fyrir það fyrsta, þá sé ég litla ástæðu til að treysta því að Alþingi geti ekki vel dottið í hug að samþykkja sæstreng, þannig að þótt þessi fyrirvari stæðist, sem ég tel fráleitt, þá er hann lítils virði í mínum huga. Eini raunverulegi fyrirvarinn sem hægt væri að treysta, væri ef sameiginlega EES nefndin gæfi okkur undanþágu frá pakkanum.
Nýlega las ég texta eftir erlendan sérfræðing í Evrópskum orkurétti þar sem hann segir að sömu lögmál gildi um orku og aðra vöru, þannig að ef viðkomandi ríki geri ekki viðeigandi ráðstafanir til að hægt sé að flytja orku hindrunarlaust milli landa, þá myndi það túlkast sem ólögleg viðskiptahindrun. Þetta er nú að raungerast í fyrirhuguðum málaferlum ESB á hendur Belgíu. Ég er ekki sannfærð um að ekki sé hægt að skylda Íslensk stjórnvöld til að leggja sæstreng þótt því hafi verið haldið fram að engin skylda felist í pakkanum fyrir Ísland að tengjast innri orkumarkaði ESB og ég er sannfærð um að það er í það minnsta ekki heimilt að standa gegn því ef fyrirtæki eins og til að mynda Atlantic Superconnection vill leggja streng á eigin kostnað.
Það er mikill misskilningur, nú eða rangfærslur, að pakkinn gangi fyrst og fremst út á neytendavernd, hann gengur fyrst og fremst út á markaðsvæðingu orkunnar og samtengingu ríkja til að mynda innri orkumarkað. Það ætti ölllum að vera fullljóst sem les þau skjöl sem mynda orkupakkann.
Ef svo ólánlega fer að Alþingi samþykki innleiðingu pakkans og ef sæstrengur fylgir í kjölfarið sem allar líkur virðast á, þá er ljóst að afleiðingar þess yrðu mjög slæmar fyrir íslenskt atvinnulíf og mannlíf í landinu. Þá gætu orkufyritæki í eigu erlendra aðila selt rafmagn, sem er framleitt á Íslandi, í gegnum sæstreng, sem einnig gæti verið í eigu erlendra aðila, út fyrir landsteinana.
Enginn arður af slíkum viðskiptum myndi skila sér til Íslendinga, en slík opnun myndi hins vegar skila sér í hærra orkuverði innanlands. Í viðauka við reglugerð 714/2009 segir að ef til þess komi að flutningskerfið ráði ekki við álagið, þá sé óheimilt að skerða flutningsgetu millilandatenginga til að ráða bót á vandamálum í innlenda flutningskerfinu. Það þýðir einfaldlega að sæstrengur hefði alltaf forgang á flutningi rafmagns umfram innlenda kerfið og gæti leitt til þess að ekki væri hægt að flytja nægilegt rafmagn innanlands. Viljum við standa frammi fyrir þess háttar vandamálum?
Það er tími til kominn að Alþingismenn standi í lappirnar og átti sig á því að þeir eru í vinnu hjá íslensku þjóðinni en ekki undirlægjur ESB. Þeim ber að standa vörð um íslenska hagsmuni og það gera þeir svo sannarlega ekki með því að samþykkja innleiðingu orkupakka þrjú.
https://gamli.frettatiminn.is/2019/06/27/hvar-er-islensk-raforkustefna/