Lögreglan á Egilsstöðum skaut í gærkvöld vopnaðan mann í Dalseli á Egilsstöðum sem neitaði að hlýða fyrirmælum lögreglu og leggja frá sér skotvopnið
Lögreglan á Austurlandi sendi frá sér tilkynningu vegna vopnaða mannsins sem lögregla yfirbugaði í gærkvöld, rúv greindi fyrst frá en Fréttatíminn kaus að hinkra með fréttir af þessu viðkvæma máli uns lögregla gæfi frekari upplýsingar. Í tilkynningunni segir að lögreglu hafi borist tilkynning um klukkan tíu um mann vopnaðan skotvopni á Egilsstöðum. Hann var sagður hóta því að beita vopninu. Lögregla koma á vettvang og heyrðust skothvellir úr íbúðinni á meðan maðurinn var inni í húsinu. Auk þess skaut hann í átt að lögreglu, segir í tilkynningunni.
Þá var ekki vitað hvort fleiri væru í húsinu. Eftir um klukkustund kom maðurinn út úr húsinu, enn vopnaður byssunni, og skaut í átt að lögreglu. Þá varð hann fyrir skoti segir í tilkynningu lögreglunnar. Maðurinn fékk í kjölfarið aðhlynningu læknis og var síðar fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Ekki er vitað með ástand hans.
Vegna rannsóknarhagsmuna getur lögregla ekki tjáð sig frekar um málið á þessu stigi. Það fer nú til rannsóknar hjá embætti Héraðssaksóknara.