Byggðaráð Skagafjarðar hefur skorað á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra að endurskoða fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir Matvælastofnunar. Fjallað var ítarlega um málið á vef mbl.is
„Þetta er gríðarlega mikil hækkun og hún er að ganga hlutfallslega mest yfir litla framleiðendur sem eru að reyna koma sér upp betri nýtingu og meiri framleið í sinni framleiðslu með því að selja beint frá býli,“ segir Einar Eðvald Einarsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar í samtali við mbl.is.
Í áskorun byggðarráðs til matvælaráðherra er einnig tekið undir með Bændasamtökum Íslands, Samtökum fyrirtækja í landbúnaði, Samtökum smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli ásamt gagnrýni bænda og framleiðenda á þessum gjaldskrárhækkunum.
Meiri hækkun fyrir minni rekstraraðila
Hann nefnir að sveitarfélagið, samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og ríkið hafi stutt við aðila í svokölluðum „beint frá býli“ búskap með margvíslegum hætti. Það skjóti því skökku við að sjá þessar hækkanir sem bitni verst á litlum sláturhúsum.
„það er leiðinlegt að sjá þessa vinnu slegna út af borðinu á einni nóttu með svona gríðarlegri hækkun á eftirlitsgjöldum. Þetta er líka hækkun á eftirlitsgjöldum gagnvart stóru aðilunum, en þetta er hlutfallslega meiri hækkun fyrir minni rekstraraðila sem eru veltulitlir fyrir.“ Einar segir í viðtalinu að ágætis atvinnusköpun hafi verið af litlum sláturhúsum en einnig tryggi þetta fjölbreyttara vöruframboð fyrir neytendur. Mótmælir því sveitarfélagið þessum áformum alfarið.
800% hækkun
Eins og mbl.is hefur fjallað um þá hafa bændur sagt þessa hækkun vera ótæka ef þeir eigi að geta haldið áfram rekstri.
Í umsögn frá Erlendi Björnssyni, bónda á Seglbúðum, og Guðjóni Þorkelssyni, prófessor og ráðgjafa, sem send var til samráðsgáttar 31. mars segir að ný gjaldskrá MAST muni margfalda eftirlitskostnað smáframleiðenda og draga úr nýsköpun á landsbyggðinni.
Þá hækki nýja gjaldskráin, samkvæmt þeirra útreikningum, kostnað sláturhússins á Seglbúðum um 800% en árið 2022 hafi hann verið um 270 þúsund krónur en verði um 2,2 milljónir með gjaldskrárbreytingunni. Rekstur fyrirtækisins muni því aldrei geta staðið undir þessum kostnaði og neyðist þá til að hætta starfsemi.