Norsk samkeppnisyfirvöld staðfesta um 60 milljarða sektir á dagvörukeðjur vegna gagnkvæmrar söfnunar á verðupplýsingum – Mikilvægt að dagvöruverslanir á Íslandi leggi mat á sína framkvæmd
Þann 21. ágúst síðastliðinn staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála í Noregi ákvörðun norska samkeppniseftirlitsins um að leggja stjórnvaldssektir á þrjár dagvörukeðjur vegna ólögmæts samráðs þeirra á milli. Ákvörðunin var staðfest í heild sinni, þar á meðal stjórnvaldssektir að fjárhæð 4,9 milljarðar norskra króna (um 60 milljarðar íslenskra króna). Málið beinist að dagvörukeðjunum Coop, Norgesgruppen og Rema, sem hafa samanlagt um 95% hlutdeild á norska dagvörumarkaðnum.
Samráðið fólst í söfnun á verðupplýsingum
Brotin fólust í umfangsmikilli gagnkvæmri söfnun dagvörukeðjanna á upplýsingum um verðlagningu dagvara hjá keppinautum, sem nýtt var innanhúss við ákvarðanir um verð.
Tildrög málsins voru þau að ACNielsen í Noregi hætti að miðla milli keðjanna upplýsingum um verðlagningu dagvara, eftir að norska eftirlitið hafði bent á að slík upplýsingamiðlun kynni að skaða samkeppni og brjóta gegn samkeppnislögum. Í framhaldinu gerðu dagvörukeðjurnar sem ákvörðunin beinist að með sér samkomulag um verðsamanburð sem fól m.a. í sér gagnkvæmar heimsóknir þeirra í verslanir hvorrar annarrar, í því skyni að safna verðupplýsingum. Fyrirtækin sammæltust einnig um nánari útfærslu á söfnun verðupplýsinga sem fól í sér rafræna skönnun á verðum í verslunum keðjanna. Þessi gagnkvæma upplýsingasöfnun var síðar útvíkkuð frekar af hálfu fyrirtækjanna.
Norska áfrýjunarnefndin staðfestir sektir og alvarleika brota
Í úrskurði norsku nefndarinnar kemur m.a. fram að upplýsingasöfnunin hafi veitt hverri dagvörukeðju fyrir sig vissu um að keppinautarnir myndu bregðast hratt við verðbreytingum. Verðlækkanir myndu því tæpast skila árangri, vegna skjótra viðbragða keppinautanna. Verðhækkanir væru hins vegar líklegri til að skila árangri, þar sem keppinautarnir hefðu tilhneigingu til þess að bregðast við þeim með eigin hækkunum.
Áfrýjunarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að samstarfið væri til þess fallið að hækka verð á dagvörum, til tjóns fyrir norska neytendur til langrar framtíðar.
Mikilvægt að íslenskar dagvöruverslanir kynni sér niðurstöðuna og leggi mat á eigin framkvæmd
Samkeppniseftirlitið hefur á liðnum árum varað við því að fyrirtæki hér á landi og hagsmunasamtök þeirra miðli upplýsingum milli keppinauta um verðlagningu og verðlagningaráform, sbr. t.d. leiðbeiningarsíðu Samkeppniseftirlitsins og nú síðast í tilkynningu á heimasíðu eftirlitsins, dags. 18. desember 2024. Þá var miðlun verðupplýsinga milli Byko og Húsasmiðjunnar talin fela í sér alvarleg brot, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 42/2019.
Bakgrunnsupplýsingar um umrædda rannsókn norskra samkeppnisyfirvalda:
- Norska samkeppniseftirlitið hóf forskoðun á málinu árið 2016.
- Húsleit var framkvæmd hjá fyrirtækjunum í apríl 2018.
- Norska samkeppniseftirlitið birti fyrirtækjunum andmælaskjal í desember 2020.
- Norska samkeppniseftirlitið tók ákvörðun í málinu 21. ágúst 2024.
- Áfrýjunarnefnd samkeppnismála birti úrskurð sinn 21. ágúst 2025 þar sem ákvörðun norska eftirlitsins var staðfest.
Stjórnvöld í ýmsum löndum, þar á meðal í Noregi, hafa á undanförnum árum aukið fjárveitingar til eftirlits með samkeppni á dagvörumörkuðum í því skyni að sporna gegn verðhækkunum til framtíðar.