Á fundi Skipulags og samgönguráðs í vikunni var okkur kynnt fyrirkomulag hönnunarsamkeppni um hönnun brúar yfir Fossvog.
Samkvæmt lögum ber að framkvæma arðsemismat á frumstigi.
Þegar undirritaður óskaði eftir gögnum um arðsemismat framkvæmdarinnar var fátt um svör:
Það er ekki til!
Þrátt fyrir að slíkt mat skuli fara fram strax á frumstigi, þá er það raunin. Ekkert arðsemismat hefur verið gert.
Undirritaður vildi ekki una þessu og bað um að úr yrði bætt, en fékk þau svör að það væri of seint?
Hvenær er of seint að fara lögum?
Nú er það nefnilega svo, að um Vegagerðina gilda lög rétt eins og aðrar stofnanir og þar segir í II.kafla, grein 4. :
,,Vegagerðin tekur þátt í gerð samgönguáætlunar. Stofnunin mótar almenna stefnu og viðmið um byggingu, viðhald og þjónustu samgöngumannvirkja, annast forsendugreiningu og frumrannsóknir vegna þeirra, greinir og ber saman ólíka valkosti, gerir tillögu að forgangsröðun verkefna, frumhannar mannvirki og metur kostnað, ARÐSEMI og umhverfisáhrif þeirra.´´
Arðsemismat er nefnilega ekkert smámál, það er einn mikilvægasti liður frumstigs hverrar framkvæmdar, þar sem framkvæmdir með slakt arðsemismat eru vinsaðar úr á því stigi, ÁÐUR en lagt er í frekari kostnað við hönnun o.s.frv. o.s.frv..
Það hlýtur að teljast lágmarkskrafa að samgöngumálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sinni starfi sínu sem æðsti maður málaflokksins og tryggi að farið sé að lögum.
Það má vel vera að löglegt sé að svíkja hvern einn og einasta lið stefnuskrá flokks síns, en það gildir klárlega ekki um það mál sem hér er til umfjöllunar. Hér eru lögin skýr.
Baldur Borgþórsson Varaborgarfulltrúi Miðflokksins — @ Ráðhús Reykjavíkur.