Frábær brúðkaupsgjöf
Karlmaður af Austurlandi gerði sér sérstaka ferð í höfuðborgina eftir síðustu helgi og var erindið að heimsækja Íslenska getspá og afhenda þeim vinningsmiða frá því á laugardaginn. Hann og kona hans duttu nefnilega í þennan dásamlega lukkupott sem svo marga dreymir um að lenda í, þau tóku þátt í Lottóinu, voru alein með allar tölurnar réttar og fengu allan 4-falda pottinn og unnu rúmar 42 milljónir.
„Þetta kemur afar sér vel“ sagði vinningshafinn í sæluvímu og svo er þetta frábær brúðkaupsgjöf fyrir þau hjónin sem héldu upp á rúmlega 40 ára brúðkaupsafmæli um helgina.
Miðann góða höfðu þau keypt í Olís á Reyðarfirði, skruppu þangað til að fá sér eina með öllu og gripu Lottóið í leiðinni – heppilegt fyrir þau!
Starfsfólk Getspár/Getrauna óskar vinningshafanum innilega til hamingju og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir öryrkja, íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af sölu Lottós.