Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns fólksbifreiðar sem ók á 10 ára dreng á Fífuhvammsvegi í Kópavogi föstudaginn 16. ágúst sl. kl. 13.48, en málið var ekki tilkynnt til lögreglu fyrr en síðar.
Við áreksturinn féll drengurinn í götuna, en stóð upp aftur og fór strax af vettvangi og því náði ökumaðurinn ekki að hafa tal af honum. Foreldrar drengsins fóru með hann á slysadeild eftir óhappið og þá komu áverkar í ljós.
Ökumaður fólksbifreiðarinnar var á vettvangi í nokkrar mínútur og ræddi m.a. við aðra vegfarendur, en hann og aðrir sem kunna að lenda í slíkum aðstæðum eru minntir á mikilvægi þess að tilkynna um það til lögreglu. Meðfylgjandi er mynd af gatnamótunum þar sem slysið varð, en fólksbifreiðinni var ekið austur Fífuhvammsveg á móts við Smáralind.
Umræddur ökumaður er beðinn um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, en hafi aðrir upplýsingar um ökumanninn, eða slysið, má koma þeim á framfæri í tölvupósti á netfangið heimir@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.