UNGA FÓLKIÐ VILL MARKVISSARI FRÆÐSLU Í EFSTU BEKKI SKYLDUNÁMS, UM SAMFÉLAGIÐ OG MIKILVÆGUSTU GILDI ÁBYRGS SJÁLFSTÆÐIS OG TIL SJÁLFBÆRRAR ÞRÓUNNAR
Í kvöldfréttum sjónvarps laugardaginn 26. október 2019, kom fram að heildarsamtök ungs fólks á Suðurlandi væri að þrýsta á markvisari og skilvirkari fræðsu í efstu bekki skyldunáms, varðandi þær skyldur sem biðu ungs fólks sem færi að standa sjálfstæðum fótum í fjármálaumhverfi þjóðarinnar.
Það gladdi mig sérstaklega að heyra þetta koma frá unga fólkinu sjálfu, þar sem talsmenn framangreindra samtaka fluttu mál sitt skírt og greinilega af kurteisi og röggsemi. Það er nokkuð sérstakt að leiða hugann að því að álíka óskir voru uppi hjá ungu fólki á árunum 1983-1986, þegar ég var að þróa aðferðir til skuldbreytinga á afborgunarlánum í bankakerfinu. Í upphafi þess tíma var ekkert svigrúm til í bankakerfinu vegna skilmálabreytinga umsaminna afborgana skuldabréfa. Bankamenn sögðu fólk bara standa við greiðslur afborgana sinna eða taka afleiðingunum.
Með því að sýna bankamönnum fram á tapið sem varð af einstrengingslegri framgöngu þeirra, ef óviðráðanlegum áföllum sem gætu orðið í tekjuöflun skuldara sem hefði óreglulegar tekjur væri ekki mætt af skynsemi, kveiknaði örlítið ljós. Á þeim árum sem ég var í hagdeild banka, fékk ég að gera fyrstu formlegu tilraunina með allsherjar skuldbreytingu, allra lána, hjá fólki sem lent hafði í óviðráðanlegu tekjuhrapi, vegna veikinda eða annarra orsaka.
Þegar þetta verkefni fór af stað, árið 1986, kom fljótt í ljós að stærstu skuldararnir voru ungt fólk sem engin skil kunnu á fjármálalæsi eða hvaða afborgunargetu það hefði sem hlutfalla af útborguðum launum. Ég ræddi þessa vanþekkingu við þáverandi menntamálaráðherra og fólk í því ráðuneyti. Ég lagði fram tillögur að námskeiðaefni fyrir elstu bekkina, þar sem farið var yfir skyldur og skuldbingingar þess að taka fjármuni að láni. Einnig var farið yfir réttindi og skyldur á vinnumarkaði, til að efla ungu fólki skilning á verndarþætti aðildar að stéttarfélagi. Komið var einnig inn á fleiri þætti sem mæta ungu fólki er það stígur sín fyrstu skref út í lífið.
Þegar maður fylgist með hve fjármálamarkaðurinn er ósvífinn í hegðun sinni gagnvart ungu fólki og fjármálaöflin bókstaflega táldraga ungt fólk út í skuldafjötra sem það ræður engan veginn við, fer ónotahrollur um mann og maður þakkar fyrir að vera ekki lengur hluti af því óheiðarlega fjármálakerfi sem virðir engin siðferðismörk.
Í næsta mánuði verða liðin 33 ár síðan ég ræddi fyrst við menntamálaráðuneytið um markvissa fræðslu í efstu bekkjum grunnskólans. Ummæli piltanna sem töluðu í fyrrgreindum sjóvarpsfréttum, benda til þess að starfsfólki menntamálaráðuneytis finnist það ekki vera í sínum verkahring að skapa sómasamlegt öryggisumhverfi í kringum unga fólkið sem þau senda út í hinn ósvífna veruleika fjármálaumhverfis okkar. Ætli það fólk hugsi aldrei til þess hversu mörgum gjaldþrotum og örðum erfiðleikum það hefði geta forðað með því að sinna betur skyldum sínum við að gera unga fólkið fært um að skilja þann veruleika sem mætir því við fyrstu skref sjálfstæðis í fjármálum. Ef raunveruleikinn er sá, að slíkt kæruelysi sé landlægt í stjórnkerfinu, þá er þjóðin verr stödd en ég hafði gert mér grein fyrir.