-2.2 C
Reykjavik
Miðvikudagur - 1. febrúar 2023
Auglýsing

Neytendur sviptir gríðarlega mikilvægum réttindum – stærsta skaðabótamál Íslandssögunnar

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Þversagnir dómstóla í verðtryggingarmálum

Það hefur því miður dregist nokkuð að upplýsa félagsmenn um niðurstöðu “stærsta skaðabótamáls Íslandssögunnar” einfaldlega vegna þess að það hefur vafist fyrir okkur hvernig fara ætti að því. Þó að niðurstaðan sé í sjálfu sér einföld (við töpuðum) þá eru útúrsnúningar málsins, rökleysur dómstóla, mótsagnir og hringavitleysan með þeim hætti, að hvorki er hægt að finna haus né sporð. Hagsmunasamtök heimilanna fjalla hér að neðan um ótrúlega baráttu við báknið á Íslandi og þá sérstaklega dómstóla:
Hér fyrir neðan reynum við okkar besta til að skýra málið fyrir félagsmönnum með skipulegum hætti og verðum að vona að þið takið viljann fyrir verkið og afsakið fjölda millifyrirsagna, en tilgangur þeirra er að gera mál, sem við sem höfum marglesið en eigum enn erfitt með að skilja, örlítið skiljanlegra fyrir ykkur sem eruð að sjá þetta í fyrsta skipti.
Í stuttu máli er niðurstaðan sú að dómstólar brugðu enn og aftur fæti fyrir íslenska neytendur með “klækjum” sem eru langt fyrir neðan það sem eftir er af þeirra virðingu. Hagsmunagæsla íslenskra dómstóla fyrir fjármálakerfið og nú ríkið er grímulaus og það eru íslenskir neytendur, heimilin, sem súpa seyðið af því.
Við vonum að sem flestir gefi sér tíma til að lesa það sem hér er rakið:

Réttindi neytenda lítilsvirt fyrir dómstólum

Sagan sem hér er rakin um meðferð dómstóla á réttindum neytenda er uppfull af þversögnum og með slíkum ólíkindum að erfitt er að koma því til skila í stuttu máli og þarf því að stikla á stóru. Hagsmunasamtök heimilanna hafa frá árinu 2012 staðið í málaferlum fyrir dómstólum í því skyni að láta reyna á lögmæti verðtryggðra neytendalána. Eina ályktunin sem hægt er að draga af þeim málarekstri sem staðið hefur linnulítið öll þessi ár, er að réttindi neytenda á fjármálamarkaði eru lítilsvirt fyrir íslenskum dómstólum sem virðast líta á það sem hlutverk sitt að verja “kerfi” sem brýtur á almenningi með öllum ráðum.
Árið 2012 leiddu rannsóknir samtakanna það fyrst í ljós að fram að því höfðu neytendur aldrei verið upplýstir um þann hluta lánskostnaðar sem hlýst af verðtryggingu þar sem hann kom ekki fram í greiðsluáætlunum. Þetta er skýrt brot á lögum um neytendarétt og neytendavernd en Hæstiréttur Íslands hefur nú endanlega hafnað því að rétta hlut neytenda vegna þess lögbrots sem þessi vanræksla lánveitenda á upplýsingaskyldu sinni sannanlega er.

EFTA dómstóllinn staðfesti að um brot væri að ræða

Árið 2014 var leitað álits EFTA dómstólsins um hvort að fyrrnefnd vanræksla á upplýsingaskyldu hefði brotið gegn Tilskipun 87/102/EBE um neytendalán sem var innleidd í íslensk lög árið 1994. EFTA dómstóllinn staðfesti að um brot á fyrrnefndri tilskipun væri að ræða.
Með þessa niðurstöðu EFTA dómstólsins í farteskinu hefði eftirleikurinn átt að vera neytendum á Íslandi auðveldur enda brotið gegn þeim staðfest með honum. Neytendum varð hins vegar ekki kápan úr því klæðinu því árið 2015 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli neytenda sem kröfðust leiðréttingar á verðtryggðu láni sínu til samræmis við þær upplýsingar sem þau fengu við lántökuna, og niðurstöðu EFTA dómstólsins. Kröfum þeirra var hafnað á þeim forsendum að tilskipunin hefði verið ranglega innleidd þannig að hin íslensku lög hefðu beinlínis heimilað að halda upplýsingum um kostnað vegna verðtryggingar leyndum fyrir neytendum.
Þar sem röng innleiðing á EES reglum á að leiða til skaðabótaskyldu ríkisins fyrir tjón sem af því hlýst, var einboðið að höfða skaðabótamál gegn íslenska ríkinu til að rétta hlut neytenda.
Þegar hér er komið við sögu var augljóst að hvernig sem allt færi ætti ríkið að bera ábyrgð.
Ef tilskipunin var ranglega innleidd var það vegna mistaka löggjafans sem er á ábyrgð ríkisins og það sama ætti við ef dómur Hæstaréttar um ranga innleiðingu væri rangur.
Ríkið ber þannig alltaf ábyrgð, Þessu máli áttu neytendur ekki að geta tapað, en það byggist að sjálfsögðu á því að dómstólar dæmi að lögum sem er algjörlega undir hælinn lagt á Íslandi.

Um hvaða lán gilda tilskipanir um neytendalán, ef þau gilda ekki um fasteignalán?(!)

Ríkið á sterka bandamenn í dómstólum og nú lá mikið við. Héraðsdómur gerði sér því lítið fyrir og sýknaði ríkið á þeim forsendum að fasteignalán féllu ekki undir gildissvið tilskipunar um neytendalán, þó að ríkið hefði nýtt sér það svigrúm sem hún veitir til að fella slík lán undir sama regluverk. Um það verður ekki fjallað nánar hér, heldur látið nægja að benda á þann tvískinnung sem í því felst.

Neytendur sviptir gríðarlega mikilvægum réttindum

Hagsmunasamtök heimilanna eru hugsi yfir því hvernig neytendur voru þarna sviptir gríðarlega mikilvægum réttindum í viðleitni dómstóla til að verja ríkið fyrir ábyrgð sinni. Ekki bara að því er varðar þetta tiltekna mál, heldur vegna þess að fasteignalán eru stærstu skuldbindingar á ævi flestra neytenda. Ef þau falla ekki undir þá vernd sem neytendaréttur á að veita, til hvers er hann þá?

Landsréttur tók afstöðu til efnisatriða málsins ÁÐUR en það var flutt

Hagsmunasamtökin brugðust við þessu með því að fara fram á að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins til að leysa úr þessum ágreiningi. Landsréttur hafnaði því að ráðgefandi álits um þetta yrði aflað þar sem fasteignalán féllu ekki undir tilskipunina en lét með því í ljós sömu afstöðu til þess og niðurstaða hins áfrýjaða dóms byggðist á. Fyrir vikið kom ekki á óvart að Landsréttur skyldi að lokum komast að sömu fyrir fram ákveðnu niðurstöðu og héraðsdómur.
Með synjun Landsréttar á beiðni samtakanna um ráðgefandi álit EFTA dómstólsins var ekki nóg um að samtökunum væri neitað um þessa einföldu ósk sem hefði leyst stóran hluta þess ágreinings sem uppi var, heldur bættu dómarar Landsréttar um betur og létu skýrt í ljós afstöðu sína til málsins, áður en aðalmeðferð fór fram. Að mati samtakanna urðu dómararnir þar með vanhæfir til að leggja dóm á málið, en kæru vegna þess var hafnað af sjálfum Hæstarétti Íslands.

Hvað er haus og hvað er sporður?

Hringavitleysan í þessu kristallast í því að sömu forsendur og niðurstaða héraðsdóms byggðist á voru notaðar sem rök fyrir því að synja beiðni okkar um að leitað yrði álits EFTA dómstólsins um hvort þær forsendur samræmdust EES-reglum. Sömu forsendur voru svo notaðar til þess að staðfesta sýknudóm héraðsdóms, án þess að leysa úr því hvort þær stæðust þau mótrök sem áfrýjunin byggðist á. Eflaust eru fleiri en við sem klóra sér í höfðinu yfir þeim þversögnum sem í þessu felast.

Hæstiréttur hafnar málskotsbeiðni – öll innlend úrræði tæmd

Þar sem málið var flutt fyrir dómi sem hafði tekið afstöðu til málsins áður en það var flutt var viðbúið að niðurstaðan yrði neytendum í óhag og því kom ekki annað til greina en að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar Íslands. Nýlega var þeirri umsókn hafnað og niðurstaða Landsréttar þar með staðfest. Þannig hafa öll innlend úrræði verið tæmd til að leita réttar neytenda vegna stórfelldustu lögbrota sem framin hafa verið á réttindum þeirra. Jafnframt eru þá uppfyllt skilyrði til að leita þess réttar utan íslensks réttarkerfis, sem hefur látið glögglega í ljós að hann verður ekki fenginn innan þess.

Dómstólar tryggja að stórfelld brot hafi engar afleiðingar

Hagsmunasamtök heimilanna harma að allt stjórnkerfi Íslands að dómstólum meðtöldum hafi leyft því að gerast að stórfelldustu brot allra tíma gegn íslenskum neytendum, hefðu engar afleiðingar í för með sér. Næstu skref í málinu eru nú til skoðunar, en ljóst er að þau verða ekki tekin annað en út fyrir landsteinana. Að svo stöddu er ekki tímabært að segja til um hvaða slík leið verði farin heldur þarf fyrst að leggja mat á þá möguleika sem standa til boða.

Vill vita meira um peningana sem verið er að flytja úr landi – ,,Verðtryggingin er ólögleg glæpastarfsemi“

https://frettatiminn.is/vil-vita-meira-um-peningana-sem-verid-er-ad-flytja-ur-landi-verdtryggingin-er-ologleg-glaepastarfsemi/