Nota má aðferðir gervigreindar til að meta aldur út frá segulómmynd af heila. Síðan má kanna hvort aldur metinn út frá heila (heilaaldur) víkur frá raunverulegum aldri og á þann hátt meta áhrif sjúkdóms á heila eða þátt heilans í sjúkdómi. Verri frammistaða í vitsmunaprófum, ákveðnir erfðabreytileikar og heilasjúkdómar eins og geðklofi tengjast háum heilaaldri.
Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar og Háskóla Íslands sem greint er frá í Nature Communications í dag.
Þegar við eldumst þá breytist heilinn á ýmsan hátt, til dæmis minnkar magn gráefnis heilans en talið er að úrvinnsla og hugsun fari aðallega fram þar. Með gervigreindaraðferð er hægt að finna mynstur í heilamyndunum og nota til að spá fyrir um aldur. Ef segulómmyndin sýnir 35 ára heila en lífaldur einstaklingsins er 30 ár, er samkvæmt því hægt að tala um að frávik frá raunverulegum aldri sé 5 ár.
Verkefnið er rannsóknaverkefni Magnúsar Arnar Úlfarssonar og Benedikts Atla Jónssonar og var unnið innan vébanda Íslenskrar erfðagreiningar. Í framhaldinu skrifaði Benedikt meistararitgerð við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands undir leiðsögn Magnúsar Arnar og Lottu M. Ellingsen.
Magnús Örn segir að notkun gervigreindaraðferða til að skoða tengsl erfða og heilastarfsemi sé afar spennandi og þessi nýja aðferð bjóði upp á margvísleg tækifæri. Hingað til hafa rannsóknir á heilaaldri aðallega beinst að áhrifum umhverfisþátta en hugmyndin að þessari rannsókn var að skoða sérstaklega áhrif erfða á heilaaldur. Niðurstaðan staðfestir í fyrsta skipti tengsl erfðabreytileika í genunum MAPT og KCNK2 á heilaaldur.