- Áfram hættustig á Seyðisfirði og rýming að hluta í gildi vegna skriðuhættu.
- Rýming verður endurskoðuð á morgun 28. desember.
- Engin hreinsunarvinna í dag vegna veðurs
Eskifjörður:
Engar hreyfingar hafa mælst síðasta sólarhringinn þar sem sprungur opnuðust í veginum upp að Oddskarði. Áfram verður fylgst með svæðinu.
Seyðisfjörður:
Gengið hefur á mikilli rigningu á Seyðisfirði í dag. Fólk hvatt til að fylgjast vel með upplýsingum um færð og veður á www.vedur.is og www.vegag.is.
Engar tilkynningar hafa borist um skriður eða drunur á svæðinu frá því í gær. Mælingar í morgun sýna að lítil sem engin hreyfing hafi orðið á upptakasvæðum skriðufalla frá því í gær. Í kvöld mun kólna og rigning á láglendi fer yfir í snjókomu. Engin hreinsunarvinna mun fara fram á rýmingarsvæðinu í dag vegna veðurs. Á morgun, mánudag, munu sérfræðingar Veðurstofunnar ásamt samstarfsaðilum meta aðstæður á ný og mæla hvort hreyfing hafi orðið á skriðusvæðinu í umhleypingunum. Upp frá því verður staða rýminga á Seyðisfiði endurmetin. Vel er fylgst með upptakasvæðum skriðufalla, bæði af snjóflóðaeftirlistmönnum á Seyðisfirði og lögreglu.
Staðan er metin daglega og yfirfarin á samráðsfundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Austurlandi, Veðurstofu Íslands, sveitarfélögum. Tilkynninga frá þeim fundum má vænta að fundum loknum. Tilkynningar verða sendar fjölmiðlum, og birtar á vefsíðum og á samfélagsmiðlum lögreglunnar á Austurlandi og almannavarnadeildar RLS. (www.logreglan.is og www.almannavarnir.is). Ef aðstæður breytast hratt munu tilkynningar þess efnis verða sendar út.
Þjónustumiðstöð almannavarna opnaði í morgun í Herðubreið á Seyðisfirði. Hægt er að senda inn fyrirspurnir á netfangið sey@logreglan.is og hringja í 839 9931.