Lán, hvort sem það eru húsnæðislán eða bílalán, væru kölluð okurlán hjá siðmenntuðum þjóðum og yrði líkt við efnahagsbrot erlendis en verðtryggð og óverðtryggð lán á Íslandi eru ekkert annað en glæpur.
Fleiri þúsund íslendingar hafa flutt til Spánar á undanförnum misserum og um er að ræða fólk sem að hefur gefist upp á Íslandi. Ísland er jú dýrasta land í heimi þegar að kemur að t.d. lífsnauðsynlegum neysluvörum eins og t.d. mat og drykk og húsnæðiskostnaðurinn er einnig alveg út úr kortinu svo vægt sé til orða tekið. – Birt 2018 og 19/09/2021 kl. 12:50 Uppfært 27.12.2023
Ekki fræðilegur möguleiki að geta búið á Íslandi
Flestir sem flytja frá Íslandi eru öryrkjar og fólk á eftirlaunum sem sér ekki fræðilegan möguleika á því að geta búið á Íslandi vegna okurs og lélegra kjara.
Hæsta verð á eldsneyti og tryggingum í veröldinni
Að eiga bíl, á eyjunni Íslandi, sem að hefur hæsta verð á eldsneyti í veröldinni og tryggingagjöld sem eru þrisvar sinnum dýrari en í tveggja klukkustunda flug fjarlægð frá eyjunni að ógleymdum ofursköttum sem að eru lagðir á bíleigendur en eru notaðir í eitthvað allt annað, er erfitt fyrir þá tekjulægri.
Fjármála- og samgönguráðherrar hafa boðað meiri skattheimtu á bílaeigendur eins og kunnugt er. Að eiga bíl á Íslandi er bara lúxus sem að ekki allir geta veitt sér, alla vega ekki þeir efnaminni sem haldið er í fátæktargildrum. Vesalingunum á að smala saman í rútur og langferðabíla eins og var hér á síðustu öld þegar fólk var fátækt eins og nú er raunin hjá tugþúsundum íslendinga.
Íslensk okurlán og spilling
Ríkisstjórnin hefur líka sýnt að það á ekkert að gera fyrir þá sem að minna mega sín á Íslandi, það á að halda áfram að moka peningum og launum í Elítuna í boði Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra „Vinstri“ „Grænna“ sem að er strengjabrúða Sjálfstæðisflokksins. Skríllinn má éta það sem að úti frýs í boði VG og vina þeirra í hinni lægstvirtustu ríkisstjórn frá stofnun Alþingis.
Íslensk lán, hvort sem það eru húsnæðislán eða bílalán, væru kölluð okurlán hjá siðmenntuðum þjóðum og yrði líkt við efnahagsbrot erlendis en verðtryggð og óverðtryggð lán á Íslandi eru ekkert annað en fjársvik og glæpur.
Flóttafólk frá Íslandi
Þegar að flóttafólk frá Íslandi lendir á Spáni, bjóðast ýmsir möguleikar fyrir það. Hvort sem að það vill leigja eða eiga húsnæðið.
Ný kennitala kostar frá 50 til 80 evrum og öll þjónusta varðandi kaup eða leigu á fasteign er mjög góð og sérstaklega er mælt með að versla við innlend fyrirtæki en ekki frá t.d. Íslandi eða öðrum löndum. Besta orðið á götunni og í reynslusögum þeirra sem að rætt hefur verið við er af innlendum fasteignasölum.
Algengt leiguverð er frá 50 til 80.000 kr. á mánuði
Hrun varð á verði fasteigna á Spáni í kreppunni og atvinnuleysi varð mikið, það var því góður tími að kaupa eignir í kringum 2008-2010 og er ennþá. Sérstaklega vinsælt er Costa Blanca svæðið og flugið til Alicante kostar slikk.
Algengt leiguverð er frá 50 til 80.000 kr. á mánuði fyrir góðar íbúðir eða t.d. raðhús með þremur til fjórum svefnherbergjum og verð er algengt frá 10 til 15 milljónum fyrir slíka eign, eða sem samsvarar verði á sæmilegum sumarbústaði á Íslandi og hægt að fá lán fyrir íbúðinni upp að 80%, og jafnvel 100% með 2-3% föstum vöxtum.
En algengt leigverð á Íslandi fyrir samskonar eign væri 350 til 450.000 kr. og kaupverðið 70 til 90 milljónir á verðtryggðum lánum sem geta endað þess vegna í 15-20% vöxtum í næsta hruni á ónýtri krónu.
Matvara og nauðsynjar meira en helmingi lægri – Betri heilsugæsla
Matvara og annar kostnaður vegna lífsnauðsynja er meira en helmingi lægri en á Íslandi og heilsugæslan er miklu betri. T.d. munar um helming á tannlæknakostnaði á Spáni og Íslandi og lyf og allt annað miklu ódýrara en í fákepnninni á þeim markaði á Íslandi.
Evrópska sjúkratryggingakortið gildir í öllum ríkjum EES. Ríkisborgarar Íslands og annarra EES-ríkja sem eru búsettir og sjúkratryggðir hér á landi eiga rétt á að fá evrópskt sjúkratryggingakort. Kortið er notað ef korthafi veikist eða slasast í öðru EES-ríki og gildir þar með 100% á Spáni.
Fátæklingar frá Íslandi búa við miklu betri kjör á Spáni
Lágt verð á fasteignum og nauðsynjum gerir fátæklingum frá Íslandi það kleift að búa við miklu betri kjör á Spáni og fólk á afgang af þeim bótum eða lífeyri sem að það fær greitt frá Íslandi. Þaðan sem að ekki er hægt að láta enda ná saman fyrir þá sem að hafa setið eftir í kjaramálum, í boði stjórnmálamanna á Íslandi sem að hafa búið til tvær þjóðir í landinu.
Ríkisstjórnin sem að núna situr og sú síðasta og þaráður, útiloka að fólk á Íslandi geti unnið fyrir sér með því að vera með krónu á móti krónu í skerðingu þegar að kemur að öldruðum og öryrkjum, sem er ekkert annað en til háborinnar skammar.
Fólk sem að hefur jafnvel unnið alla sína ævi og borgað í lífeyrissjóði á Íslandi er ekki að fá greitt úr þeim það sem að þarf til þess að draga andann og það er ekkert að fara að breytast. Síðasta hálmstráið var að mínu mati VG en þeir hafa svikið þá verst settu þegar að kemur að kjarabótum. Þrátt fyrir innantómar upphrópanir Katrínar Jakobsdóttur um úrbætur, fyrir kosningar
Trúin er löngu horfin á Ísland og fólk treystir ekki Alþingi og allra síst VG
Ríkisstjórnin og VG halda utan um Elítuna og eru hægri hönd Sjálfstæðisflokksins þegar að kemur að því að pína þá verst settu. Ef það væri einhver raunverulegur vilji til að breyta ástandinu, væri VG löngu búið að því.
VG er með Forsætisráðherrastólinn en Katrín gerir ekki neitt nema hirða sín laun á þriðju milljón á mánuði og mun ekki gera neitt annað, enda er þetta handónýtur flokkur með vonlausan formann. Sem mun aldrei aftur leppa hægri ríkisstjórn, vegna þess að flokkurinn mun þurrkast út í næstu kosningum eins og Björt framtíð gerði. (Skrifað 2018 og hefur raungerst 2023, fylgið er hrunið og flokkurinn mun detta út af Alþingi).
Það sýnir sig best á því hve margir flýja land sem að treystu á breytingar, sú trú er löngu horfin og fólk treystir ekki Alþingi og allra síst VG sem að hefur núna sýnt sitt rétta andlit.
- Eftirfarandi dæmi koma frá verslun sem heitir Mercadona / Evran var 139 kr. 2018, en íslenska krónan hefur hrunið síðan þá, enda handstýrt gengi í 101 Reykjavík.
- Hálf melóna = 2.85 evrur
Digestive kexpakki = 1.40 evrur
200 gr ostur í sneiðum = 2.15 evrur
5 stk löng heilhveitibrauð = 1 evra - Hér koma nokkur dæmi úr búð sem heitir Consum
1 líter mjólk = 0.62 evrur
200 gr ostur í sneiðum = 1.69 evrur
1.5 líter sódavatn 0,35 evrur
Lays snakk = 1.21 evrur
Fanta Lemon lítil dós = 0.33 evrur
Gróft brauð, í sneiðum = 0,65 evrur - Rjómapeli = 0,44 evrur
Súkkulaði krósant = 0.49 evrur
Tómatsósa = 0,75 evrur
Ef að allir kostnaðarliðir eru teknir saman á Íslandi og svo á Spáni, þá blasir það við að mun auðveldara er að lifa á Spáni en Íslandi. Samtrygging og fákeppni í sölu á matvöru, eldsneyti, tryggingum og svo vaxtakostnaði ofl. ofl. er bara þannig að fólk sem að vinnur ekki margar vinnur,eða hefur komið sér vel fyrir hjá ríkinu og fellur undir Kjararáð eða álíka, á hreinlega ekki séns.
Leigu og fasteignamarkaðurinn er líka svo mikið bull að það er ekki heil brú til þegar að því bulli öllu saman kemur.
Ég mun láta fara vel um mig í sólinni hér á Spáni og hugsa til íslendinga sem að eru fastir á eyjunni langt norður í hafi, þar sem að ekkert bíður annað en harður vetur og áframhaldandi strit í boði stjórnvalda, eftir ömurlegt sumar.
Sumir eru jafnari en aðrir á Íslandi, (George Orwell 1984). VG mokar undir elítuna eins og enginn sé morgundagurinn, hvað með aflandseyju gróðann og spillinguna i sjávarútvegi? Allt undir verndarvæng VG.
P.s. að lokum langar mig til þess að birta orðrétt grein forsætisráðherrans, Katrínar Jakobsdóttur fyrir þá sem að nenna að lesa þann þvætting sem að hún hafði í frammi þegar hún var í stjórnarandstöðu og vantaði atkvæði trúgjarnra íslendinga til þess að komast í vel launað starf með á þriðju milljón á mánuði + öll hlunnindi. Ég hef alveg sleppt því að hlusta á áramótaávörp hennar frá 2018, vegna þess að mér verður bumbult þegar verið er að ljúga upp í opið geðið á mér og myndi bara spilla annars ánægjulegum áramótum.
P.s. þetta fannst mér besta atriðið í skaupinu 2018, vegna þess að það er hárrétt en auðvitað hefur bæst við hellingur af klúðri og spillingu síðan þá og flokkurinn að falla út af þingi 🙂
Hér að neðan er orðrétt gasprið sem að Katrín náði atkvæðunum ykkar á :
,,Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Núverandi áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir því að að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör. Það á að bjóða atvinnulausu fólki með fullan bótarétt upp á 217 þúsund krónur á mánuði.“
Lægstu laun á Íslandi duga ekki til framfærslu og fólk á lægstu launum er beðið að vera þakklátt fyrir 20 þúsund krónur því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið. Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig, er viðkvæðið, en allt stendur þetta til bóta. Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er um leið verið að neita því um réttlæti.
,, Þetta snýst ekki um einstaka stjórnmálamenn. Og ég er ekki heldur að segja að kerfi séu slæm í eðli sínu. En frumskylda stjórnmálamanna er við fólkið. Og leikreglurnar eiga að þjóna fólkinu, tryggja réttlæti og mannúð fyrir alla. Getum við sagt að samfélag þar sem stórum hópum fólks er haldið í fátæktargildru sé réttlátt? Fólks sem hefur til dæmis ekki valið sér þau örlög að verða óvinnufært?“
,, Ranglæti, hvar sem það finnst í samfélaginu, er ógn við réttlætið og þess vegna megum við aldrei slaka á í baráttu okkar fyrir réttlátu samfélagi. Og að bíða með réttlætið jafngildir því að neita fólki um réttlætið – eins og Martin Luther King orðaði það í frægu bréfi.
Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja biðina eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni. Þá ábyrgð þurfum við öll að axla.“
,,Þetta snýst ekki um einstaka stjórnmálamenn. Og ég er ekki heldur að segja að kerfi séu slæm í eðli sínu. En frumskylda stjórnmálamanna er við fólkið. Og leikreglurnar eiga að þjóna fólkinu, tryggja réttlæti og mannúð fyrir alla. Getum við sagt að samfélag þar sem stórum hópum fólks er haldið í fátæktargildru sé réttlátt? Fólks sem hefur til dæmis ekki valið sér þau örlög að verða óvinnufært?
Kæru landsmenn
Ég hef áhyggjur af því að þrátt fyrir efnahagslegan uppgang vanti svolítið upp á þennan sameiginlega skilning á því hvað felst í samfélagi. Ég hef áhyggjur af því að of margir séu beðnir um að bíða eftir réttlætinu.
Og af því að spurt er hvað valdi því að fólk komi sér ekki saman um einfalda hluti eins og forgangsröðun þá er rétt að svara þeirri spurningu fyrir mitt leyti. Á Íslandi þarf stjórnvöld sem treysta sér til að útrýma fátækt. Um það hefur ekki verið eining hér á Alþingi þó að sumir stjórnmálamenn tali eins og hér séu allir sammála um tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. En í raun höfum við ekki verið sammála um að skattkerfið eigi að tryggja jöfnuð.
Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að bregðast við því að ríkustu tíu prósentin á Íslandi eigi allan auð í landinu. Launajöfnuðurinn sem hæstvirtur forsætisráðherra nefndi hér áðan er nefnilega aðeins annar hluti myndarinnar.
Vaxandi misskipting auðsins sprettur beinlínis af pólitískum ákvörðunum. Sem hingað til hafa verið þær að ekki megi skattleggja auðinn, ekki megi skattleggja fjármagnseigendur eins og venjulegt launafólk, ekki megi setja sérstakt hátekjuþrep á verulega háar tekjur eins og þær sem skila sér í kaupaukagreiðslum sem margir þingmenn flytja vandlætingarræður um en heykjast svo á að taka á í gegnum skattkerfið.
Sama má segja um bótakerfin, vaxtabætur og barnabætur, sem nýtast æ færri. Á bak við það eru líka pólitískar ákvarðanir sem hafa ekki miðað að því að auka jöfnuð og draga úr misskiptingu, heldur þvert á móti.
Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að taka pólitískar ákvarðanir til að útrýma fátækt og draga um leið úr misskiptingu.
Hér þarf stjórnvöld sem vilja byggja upp menntakerfið. Háskólar og framhaldsskólar þurfa meira fé og ekki aukið fé á nemanda með þeirri aðferð að fækka nemendum, eins og of mikil langskólamenntun sé sérstakt vandamál á Íslandi. Það er hægt að taka pólitíska ákvörðun um að bæta og byggja upp menntakerfið, veðja á fjárfestingu í menntun, rannsóknum og vísindum sem er í senn mikilvægasta undirstaða blómlegs atvinnulífs og eitt mikilvægasta tækið til að auka jöfnuð og skapa forsendur fyrir einstaklinga til að sækja fram.
Hér þarf stjórnvöld sem vilja byggja upp félagslega rekið heilbrigðiskerfi þar sem Landspítalinn stendur undir hlutverki sínu, heilsugæslan fær fjármagn til að vera fyrsti viðkomustaður, setja fjármuni sem um munar í að bæta stöðu geðheilbrigðismála og aukin áhersla er lögð á forvarnir til að efla lýðheilsu og heilbrigði – það þarf stjórnvöld sem ekki hafa þá hugsjón í heilbrigðismálum að útvista verkefnum til einkaaðila sem í framhaldinu greiða sjálfum sér arðgreiðslur af almannafé. Það er pólitískt val, pólitísk ákvörðun. “ Svo mörg og fögur voru þau orð þegar að á atkvæðaveiðum stóð en minna um efndir og oftast engar.
Fyrst birti ég greinina á vef Fréttatímans í ágúst 2018 og svo 2021 og loks nú 2023 og sendi greinina aftur með litlum breytingum því ekkert hefur breyst á kjörtímabilunum, nákvæmlega ekkert hefur breyst síðan þá, nema að kjörin hafa versnað, virði krónunnar minnkað og verðlag hækkað og ekkert hefur verið gert fyrir þá efnaminni.
Þá hef ég bætt við nýrri grein um lægra verð á Spáni með 200 myndum. Verði einhverjar hækkanir á bótum, lífeyri eða launum á Íslandi, þá munu þær étast upp í verðbólgu eins og alltaf. Enda er verið að tala um að hækka t.d. laun á þremur árum en það hefur aldrei verið hægt að gera plan á Íslandi í svo langan tíma í gölluðu hagkerfi með ónýtan gjaldmiðil og verðtryggingu sem er bara svikamylla. Á Íslandi mun ekkert breytast og þeir sem eru að flytja hingað út, segja mér að þeir hafi heldur enga trú á því að nokkuð breytist á klakanum, það er fullreynt!
Kveðja, Jón Magnússon