Vegna frétta fjölmiðla í gærkvöld og í morgun um handtöku manns á aðfangadag vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að hún kannast í engu við þá atvikalýsingu sem þar er haldið fram.
Embættið getur hins vegar upplýst að karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í Hlíðunum í Reykjavík eftir hádegi á aðfangadag í kjölfar tilkynningar um mann, sem var sagður vera sofandi í bíl og hafði bíllinn víst verið í gangi í töluverðan tíma.
Lögreglan brást við tilkynningunni, hélt á vettvang og fann bílinn og reyndist maður vera sofandi í bílnum. Hann var vakinn og því næst spurður um persónuupplýsingar eins og venja er, en neitaði að gefa þær upp þrátt yfir margítrekaðar beiðnir lögreglu.
Fór svo að maðurinn var færður á lögreglustöð, en hann var áfram tregur til að veita persónuupplýsingar og var jafnframt margsaga. Reynt var að komast að heimilisfangi mannsins, en hann var heldur ekki hjálplegur í þeim efnum. Svo fór þó að lokum að lögreglunni tókst að koma manninum til síns heima og sannreyna hver hann væri.
Lögreglan leggur sig ávallt fram um að eiga góð samskipti við alla borgara og það átti líka við hér. Samskipti við manninn sem um er rætt voru tekin upp á búkmyndavélar lögreglumanna og styðja það sem hér hefur verið nefnt.
Úr dagbók lögreglu á aðfangadag:
Því miður, þá gistir einn fangageymslu þegar þetta er ritað en sá aðili neitaði af gefa upp persónuupplýsingar sínar sem honum er skylt að gera. Þrátt fyrir miklar tilraunir lögreglumanna um að tala um fyrir manninum um að gefa upp upplýsingar um sig þá bar það ekki árangur. Hann mun því eyða kvöldinu við aðstæður sem lögreglumenn vildu ekki enda okkur verulega kært að allir séu í faðmi sinna nánustu.