,,Tálmunarofbeldi er ofbeldi. Punktur. Það felst í því að gera barn afhuga eða ófært um að eiga samband við annað foreldri, yfirleitt föður. Börnin eru kerfisbundið heilaþvegin, haldið í fjarlægð frá þeim sem þau elska, þar til tengslin rofna. Þetta er ekki ágreiningur milli fullorðinna, þetta er kerfisbundið andlegt ofbeldi gegn barni“, segir í aðsendri grein fyrr á árinu sem og:
Afleiðingarnar eru skelfilegar: Börnin læra að hafna hluta af sjálfum sér, finna til missis, sorgar sem og brenglunar á lífi sínu og bera sárin á sál sinni, inn í fullorðinsárin. Rannsóknir sýna að börn sem alast upp við slíkar aðstæður eru líklegri til að glíma við kvíða, þunglyndi, vantraust í nánum samböndum og skerta sjálfsmynd. Þau missa jafnframt þá ómetanlegu reynslu að eiga báða foreldra sína og þeirra fjölskyldur í lífi sínu.
Hvað gerir barnavernd?
Og hvað gerir barnavernd? Ítrekað er bent á tálmanir í fjölmiðlum, feður segja frá því að dómaraúrskurðir séu virtir að vettugi og fleira en barnavernd horfir á. Hún kallar þetta „samskiptaörðugleika“ eða „deilu foreldra“ í stað þess að horfast í augu við að þetta er ofbeldi gegn barni. Með aðgerðarleysinu verður barnavernd samsek þeim (oftast móður) sem beitir grófu tálmunarofbeldi.
Hvar er sérfræðiþekking starfsmanna á þessu sviði? Hún er ekki til staðar, frekar en hjá öðrum stofnunum í kerfinu og nær það þekkingarleysi alla leið til dómstóla. Hvernig er hægt að tala um barnavernd ef hún ver ekki barnið fyrir því að vera tekið úr tengslum við annað foreldri og þeim skelfilegu afleiðingum sem barnið verður fyrir í slíku ofbeldi til lífstíðar?
Það þarf að segja þetta hreint út: Barnavernd á Íslandi styður tálmunarofbeldi með þögn og aðgerðaleysi. Og á meðan bera börnin örin á sál sinni fyrir lífstíð í boði svokallaðarar barnaverndar.
Það er ekki nóg að tala um réttindi og velferð barna. Það þarf að tryggja þau í verki!
Um jól og áramót þjást mörg börn og foreldrar vegna foreldraútilokunar

Foreldraútilokun er alvarlegt andlegt ofbeldi og lýðheilsuvandamál.
Þegar barn er hindrað í að eiga samskipti við annað foreldri sitt verður það fyrir tengslarofi sem getur haft djúpstæð áhrif á sjálfsmynd, andlega heilsu og þroska barnsins. Rannsóknir sýna að slíkt mótlæti í æsku getur haft langvarandi afleiðingar, langt fram á fullorðinsár.
Um jólin, þegar börn eiga að finna fyrir öryggi, verða þessi sár oft djúpstæð.
Börn eiga rétt á báðum foreldrum sínum.

