Ónýtt stjórnunarkerfi
Það sem stendur upp úr allri umræðunni um niðurskurð á þorskveiði næsta fiskveiðiárs er að stjórnkerfið er handónýtt. Þegar skerða á þorskkvótann verulega en aðrar kvótategundir ekki veldur stjórnkerfið þvílíkri mismunun milli útgerðarstaða að stjórnmálamenn sjá ekki út úr þeim vanda. Tillögur Hafrannsóknarstofnunar þýða að aflaheimildir á Vestfjörðum skerðast um rúm 11% en aukast um 1,15% í Reykjavík svo dæmi séu tekin. Það er, skellurinn af minnkandi þorskveiði lendir á sumum en öðrum ekki. Niðurskurður þorskveiða hefur hlutfallslega sömu áhrif hvort sem ákvörðunin verður 175 þús. tonn, 190 þús. eða einhver önnur tala lítið eitt hærri.
Þetta verður betur ljóst þegar athugað er hvað sjávarútvegur er stór þáttur í atvinnulífi einstakra staða og kjördæma. Í Reykjavík er hlutur sjávarútvegs einungis 3% af ársverkum og þar er þorskurinn aðeins um 24% af aflanum skv. tölum vegna ársins 1990. Þriðjungs niðurskurður þorskkvóta í Reykjavík þýðir líklega vel innan við 1% fækkun ársverka eða um 100. Það er hverfandi á vinnumarkaði sem er 47.140 ársverk. í Hafnarfirði er sjávarútvegur innan við 8% ársverka og þar er þorskaflinn um 40% af afla Hafnfirðinga. Á báðum þessum stöðum eru uppistaðan veiði á öðrum kvótategundum en þorski og aukin veiði á þeim er fljót að eyða áhrifum af niðurskurði á þorski. Aðrir staðir á höfuðborgarsvæðinu, Kópavogur, Garðabær, Seltjarnarnes, Bessastaðahreppur og Mosfellsbær, eru þannig settir að varla er hægt að tala um sjávarútveg þar. Áhrif af miklum niðurskurði í þorskveiðum yrðu hverfandi á höfuðborgarsvæðinu.
Annað yrði uppi á teningnum víða á landsbyggðinni. Á Vestfjörðum eru ársverk í sjávarútvegi frá 30-60% á útgerðarstöðum þar og þorskurinn er 50-70% af aflanum. Þar eru störfin vegna veiða og vinnslu á þorski mjög mörg og störfin í öðrum atvinnugreinum tiltölulega fá. Áhrifin af miklum niðurskurði í þorskveiðum yrðu gífurleg.
Búseturöskun með handafli
Ef beita á kvótakerfinu við þessar aðstæður jafngildir það ákvörðun um að fækka fólki á landsbyggðinni og fjölga því á höfuðborgarsvæðinu. Þeir stjórnmálamenn sem einungis vilja skerða þorskkvótann en ekki gera aðrar ráðstafanir til að breyta áhrifunum af þeirri sömu ákvörðun um stórfellda búseturöskun á næstu árum. Sú stefna er framkvæmd með því að beita stjórnkerfi kvótans, það er með handafli, en er ekki afleiðing þess að náttúruleg skilyrði vestfirskra sjávarplássa hafi breyst til hins verra umfram aðra staði. Helstu veiðisvæði þorsks eru enn fyrir utan Vestfirði eins og verið hefur hingað til. Það hefur ekkert breyst og mun ekki breytast.
Stjórnkerfi peninganna
Fiskveiðistjórnunin, sem tekin var upp 1984, hefur ekki skilað okkur skynsamlegri sókn í þorskinn. Öll árin frá 1984 til 1990 var veitt langt umfram tillögur fiskifræðinga, allt upp í 60% eitt árið. Kvótakerfið er í eðli sínu ekki fiskveiðistjórnun heldur skömmtunarkerfi réttinda sem gengur kaupum og sölum. – Í því er fiskurinn ekki aðalatriðið heldur peningarnir.
Það hefur að meginmarkmiði að ávaxta peninga en ekki varðveita fiskistofna. Kvótakerfi hefr víðar verið reynt, t.d. í EB. Framkvæmdastjórn EB sendi frá sér skýrslu í desember sl. um framvindu sjávarútvegsstefnu EB. Þar kemur fram að markmiðið með stefnunni „hefur frá upphafi verið að tryggja skynsamlega nýtingu fiskistofna“ en niðurstaðan er: „Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar kemur m.a. fram að taka verði núverandi kvótakerfi til endurskoðunar þar sem kerfið hefur orsakað nánast stjórnlausa ásókn í fiskistofna og að mikið af undirmálsfiski er hent fyrir borð með þeim afleiðingum að sumir stofnarnir séu nú aðeins um 15% af því sem þeir voru fyrir 20 árum“ og „á þeim tíma sem liðinn er frá samþykkt sjávarútvegsstefnunnar, hafa helstu vandamál sem steðjað hafa að sjávarútvegi í EB verið hrun fiskistofna.“ Þetta kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál frá mars 1992.
Staðan er þannig að ekki er hægt að gera hvort tveggja í senn að úthluta veiði skv. kvótakerfinu og viðhalda byggðinni. Til þess er of litlu að skipta. Öðru hvoru verða menn að fórna, kvótakerfinu eða landsbyggðinni. – Flóknara er það ekki. Fyrir mér er valið einfalt, stjórnkerfi er fyrir fólk en ekki öfugt. Vandamál sjávarplássa þar sem helsta útgerðarfyrirtækið er að fara á hausinn er ekki gjaldþrotið sjálft, þótt erfitt sé, heldur hitt að rétturinn til að sækja á miðin er til sölu hvert á land sem er. Vandamálið er stjórnkerfið en ekki fólkið sem býr í sjávarplássunum. Það þarf meiri sögumann en Münchhausen til að sannfæra þjóðina um annað.
Kristinn H. Gunnarsson, skrifað 28. júlí 1992
https://www.fti.is/2019/02/26/med-rettu-aetti-ad-gefa-fiskveidar-innfjarda-frjalsar-segir-fiskifraedingur/