Orkustofnun hefur staðfest kvörtun Orku heimilanna um að dreifiveitur brjóti lög með því að setja alla nýja notendur rafmagns sjálfgefið í sölu hjá því sölufyrirtæki sem dreifiveitan er í tengslum við
Í niðurstöðu Orkustofnunar kemur fram að dreifiveiturnar hafi með háttsemi sinni brotið gegn ákvæðum reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1050/2004 og að þessi háttsemi gangi gegn skilyrðislausum rétti viðskiptavina til að eiga viðskipti við þá raforkusala sem þeir hafa kosið að kaupa raforku af.
Fram kom í kvörtun Orku heimilanna að dreifiveiturnar hafi frá upphafi setningar raforkulaga hunsað skýr ákvæði í lögunum um notendaskipti og sett alla nýja raforkunotendur sjálfgefið í viðskipti við það sölufyrirtæki sem dreifiveitan er í tengslum við.
Þannig hafa þau viðhaldið markaðshlutdeild síns sölufyrirtækis og komið í veg fyrir eðlilega samkeppni. Með aðgerðum sínum hafa dreifiveiturnar skipt markaðnum á milli sölufyrirtækja með markvissum hætti og tryggt sínu sölufyrirtæki raforkuviðskipti upp á milljarða króna.
Dreifiveiturnar sjá um dreifingu rafmagns á sínum svæðum og hafa til þess starfsleyfi Orkustofnunar. Það er sérstaklega alvarlegt ef dreifiveitum er beitt til þess að beina viðskiptum til tiltekinna sölufyrirtækja. Orkustofnun hefur með úrskurði sínum fallist á að framangreind háttsemi sé í andstöðu við reglugerð um raforkuviðskipti.