„Menn þurfa aðeins að hemja orðræðuna“
Það er engin COVID-bylgja í gangi sagði Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Silfrinu í dag. Hún sagði að fólk yrði að hemja orðræðuna og að gripið hefði verið til mjög harðra aðgerða á grundvelli fárra smita utan sóttkvíar. Sigríður sagði að gæta þyrfti meðalhófs og einnig þess að lagaheimild væri fyrir aðgerðum. Þar vísaði hún sérstaklega til áforma um að skylda fólk í farsóttarhús við komuna til landsins frá svæðum þar sem faraldurinn er mjög skæður.
Sigríður gerði athugasemd við „að 1. apríl eigi að taka gildi reglugerð sem skyldi alla sem koma til landsins frá tilteknum svæðum í heiminum í farsóttarhús sem er ákvörðun á pari við gæsluvarðhald í nokkra daga.“„Menn þurfa aðeins að hemja orðræðuna ef það má grípa svo leiðinlega til orða. Það er auðvitað ekki nein bylgja í gangi í dag,“ sagði Sigríður samkvæmt frétt á rúv.is.