Mánudaginn 23. apríl kom á lögreglustöðina á Selfossi maður á þrítugsaldri og lagði fram kæru á hendur öðrum sem einnig er á þrítugsaldri sem hann sagði hafa haldið sér föngnum. Annarsvegar í sumarbústað í Árnessýslu og hinsvegar í bíl viðkomandi ásamt því að veitast að honum, bæði með barsmíðum þar sem skiptilykli og kylfu mun hafa verið beitt ásamt hótunum um frekari barsmíðar.
Umrætt atvik mun hafa átt sér stað í liðinni viku og voru bæði viðkomandi sumarbústaður, sem og bifreið sem hald var lagt á í Reykjavík, rannsökuð sem mögulegir brotavettvangar. Tilkynnandinn leitaði læknis vegna málsins til að fá gert að áverkum sem hann bar á líkamanum. Hann telur að meint frelsissvipting hafi varað í einhverjar klukkustundir.
Meintur gerandi var handtekinn að kvöldi þriðjudags í sumarbústaðnum sem um ræðir og færður í fangahús. Hann kannaðist við málið við yfirheyrslur hjá lögreglu.Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var fengin til að aðstoða við tæknirannsókn á vettvöngunum tveimur.
Í ljós kom að meintur gerandi var á reynslulausn og eru fyrrgreind brot talin rof á þeirri reynslulausn. Því var gerð var krafa fyrir Héraðsdómi Suðurlands um að hann skyldi ljúka afplánun sinni og féllst dómari á þá körfu lögreglustjóra. Maðurinn er því kominn til afplánunar í fangelsi á ný.