Íslendingarnir tveir, 32 og 35 ára sem að voru handteknir vegna morðsins á fertugum Íslendingi í Mehamn í Finnmörk í morgun, eru báðir grunaðir um aðild að morðinu
Sá eldri er hálfbróðir fórnarlambsins og er um fjölskylduharmleik um að ræða skv. upplýsingum Fréttatímans sem að fékk nákvæmar upplýsingar um alla málavexti, en af tillitsemi við aðstandendur verður ekki fjallað nánar um málið.
Lögregla segir hann hafa verið í nálgunarbanni gegn hinum látna frá 17. apríl eftir að hann hafi hótað honum en erjur voru á milli bræðranna skv. upplýsingum Fréttatímans.
Lögregla vinnur nú að því að rannsaka þessar hótanir betur en vill ekki fara út í það í hverju þær fólust.
Yngri maðurinn sem að var í slagtogi með hálfbróðurnum, hefur neitað aðild að málinu en hann hefur samt sem áður ennþá stöðu grunaðs manns skv. upplýsingum lögreglu.
Eldri aðilinn, hálfbróðir fórnarlambsins, setti færslu inn á facebooksíðu sína áður en hann var handtekinn í gærmorgun og þar baðst hann fyrirgefningar og sagðist hafa framið svívirðilegan glæp sem myndi elta hann alla ævi og sagði að atvikið hefði verið stórslys og að hann hefði aldrei ætlað að hleypa skoti af byssunni.
Minningarathöfn var haldin í Mehamn og kirkjan í þorpinu Gamvik var opin íbúum. Bæjarstjóri Gamvik segir að málið sé mikill harmleikur í litlu samfélagi þar sem allir þekki alla.