Miðflokkurinn telur nauðsynlegt að strax verði ráðist í almennar og einfaldar aðgerðir til að koma til móts við þann bráðavanda sem steðjar að heimilum og fyrirtækjum landsins. Miðflokkurinn kynnir hér traustan grunn fyrir þær viðbótarlausnir sem þurfa að fylgja.
Almennar lausnir fyrir heimili:
Markmið: Verja lífskjör allra og auka ráðstöfunartekjur
- Lækka staðgreiðslu skatta, tekjuskatt og útsvar í 24% til loka árs 2021
Aðgerð sem nær til launþega, eldriborgara og öryrkja, frá og með 1. júní nk. til 31.desember 2021. Lækkunin eykur ráðstöfunartekjur sem skilar sér í aukinni einkaneyslu og styður við innlend fyrirtæki.
- Greiðslur vaxta og verðbóta vegna fasteignalána atvinnulausra falli niður í allt að 18 mánuði og höfuðstóll frystur. Leigustyrkur til þeirra sem eru í leiguhúsnæði.
Aðgerðin nær til allra sem eru á atvinnuleysisskrá, frá og með 1. júní nk. til 31. desember 2021. Óheimilt verði að innheimta vexti og afborganir á tímabilinu. Lánstími lengist til jafns við lengd frystingar.
Almennar lausnir fyrir ferðaþjónustuna:
Markmið: Að gera ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að leggjast í dvala til að geta risið upp aftur
- Öll lán frá innlendum lánveitendum ferðaþjónustunnar verði fryst til loka árs 2021. Leigustyrkur til þeirra sem eru í leiguhúsnæði.
Aðgerðin nær til allra ferðaþjónustufyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna heimsfaraldursins. Lán verði fryst frá og með 1. júní nk. til 31. desember 2021. Óheimilt verði að innheimta vexti og afborganir á tímabilinu. Ríkissjóður greiði lánveitendum helming vaxtagreiðslna á tímabilinu.
- Greiðslur fasteignagjalda verði frystar í 24 mánuði vaxtalaust
Sveitarfélög frysti greiðslur fasteignagjalda af húsnæði ferðaþjónustufyrirtækja til 24 mánaða, vaxtalaust. Endurgreiðsla með 48 jöfnum afborgunum, sú fyrsta eftir 30 mánuði.
- Fyrirtækjum og starfsfólki verði gert kleift að viðhalda ráðningarsambandi án greiðslu launa í allt að 12 mánuði
Úrræðið nær til allra ferðaþjónustufyrirtækja og starfsfólks þeirra, sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna áhrifa heimsfaraldursins. Lausn verður framkvæmd með útvíkkun laga nr. 19/1979, þar sem atvinnurekandi getur við vissar aðstæður tekið starfsmann af launaskrá en ráðningarsamningurinn heldur gildi sínu.
Fyrir öll fyrirtæki: Tryggingagjald fellt niður til loka árs 2020
Frá og með 1. júní nk. til 31.desember 2020.
Nauðsynlegt er að hafa traustan grunn til að byggja á og ráðast strax í aðgerðir sem geta ekki beðið.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að góðar hugmyndir séu nýttar sama hvaðan þær koma.
Miðflokkurinn – fyrir land og þjóð