Auglýsingar ná því stundum að verða listrænar táknmyndir fyrir dekadent firringu í samfélaginu.
Ég held að þessi nýjasta auglýsing SFS sé slík táknmynd. Ákveðinn hápunktur í herferð útgerðarinnar gegn leiðréttingu veiðigjaldanna.
,,Einn af fégráðugu drullusokkunum í Exit“
Auglýsingin er mjög fagmannlega gerð. Handritið er að vísu ekki gott en auglýsingin skartar útlenskum leikara, Jon Øigarden, sem svo kaldhæðnislega vill til að lék einn af fégráðugu drullusokkunum í Norsku þáttunum Exit.
Allur þessi áróður er framleiddur af fólki sem finnst svo þrengt að sér og rekstri sínum, sem sé nú þegar í járnum. Samt er hreinn rekstrarhagnaður þeirra 93 milljarðar (Níutíu og þrjú þúsund milljónir) og fellur aðeins í 84, sem er sirka það sem þessi leiðrétting felur í sér.
Þau vilja halda því fram að þessar eðlilegu og sanngjörnu aðgerðir séu hrein aðför að þeim og muni jafnvel kippa fótunum undan rekstri þeirra, leggja atvinnuveginn í rúst og tortíma blómlegum sjávarþorpum útum landið.
Þetta er bara einfaldlega ekki rétt og það er Íslensku þjóðinni augljóst að þetta er einungis fyrirsláttur og leikaraskapur sem nýtur engrar meðaumkunar og þeim einungis til háðungar.
Með atvinnuvegunum okkar þá fjármögnum við innviði samfélagsins; heilbrigðiskerfi, menntun, öldrunarþjónustu, samgöngur, löggæslu osfrv.
Fiskurinn í sjónum er ein af grunnstoðum samfélags okkar. Hann er eign okkar allra og við þjóðin eigum skýlausan rétt á að fá sanngjarnan hluta af þeirri köku ❤️
Í stað þess að eyða tíma og peningum í þessa drýldnislegu sérhagsmunagæslu þá ættum við frekar að byggja upp eitthvað sem skiptir raunverulegu máli, einsog til dæmis langtímabæra þjónustu við börn og ungmenni í vanda. Þar ríkir alvöru neyðarástand.
85% vilja afturkalla veiðirétt SFS vegna hótana í garð eiganda kvótans – Íslensku þjóðinni