Þrjú samtök hafa efnt til mótmæla á Austurvelli vegna brottvísana rúmlega 250 hælisleitenda. Mótmælin standa yfir en að baki þeirra standa No Borders Iceland, Refugees in Iceland, Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.
,,Íslensk stjórnvöld stefna á að brottvísa um 250 – 300 umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Íslandi á næstu dögum! Um er að ræða fordæmalausa hópbrottvísun á fólki.
Mikill fjöldi þeirra sem standa frammi fyrir brottvísun verða send til Grikklands, þar sem aðstæður eru ekki nokkurri manneskju sæmandi, eins og vitað er! Þar að auki hefur fjöldi þeirra sem nú á að brottvísa verið á Íslandi í meira en tvö ár og fest hér rætur.
Flóttafólk á Íslandi, í samvinnu við Solaris og No borders, boðar til mótmæla gegn þessum fyriruguðu brottvísunum íslenskra yfirvalda og biður þig um að koma og sýna þeim stuðning. Saman viljum við hvetja íslensk stjórnvöld til þess að sýna öllu flóttafólki virðingu og koma fram við alla með reisn og stoppa þessa hópbrottvísun á flóttafólki í lífshættulegar aðstæður!“ Segir á síðu mótmælendanna
Viðbrögðin við ákvörðun stjórnvalda hafa verið hörð. Anges M. Sigurðardóttir biskup gagnrýndi áform íslenskra stjórnvalda og segir fordæmalausar brottvísanirnar stríða gegn kristnum gildum. „Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur,“ skrifaði séra Davíð Þór Jónsson sóknarprestur um brottvísanirnar:
https://gamli.frettatiminn.is/24/05/2022/serstakur-stadur-i-helviti-fyrir-folk-sem-selur-sal-sina-fyrir-vold-og-vegtyllur/