Hjarta Hafnarfjarðar í hjarta Hafnarfjarðar
Lengsta tónlistarhátíð landsins – ómissandi hluti af sumardagskrá Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar
Tónlistar- og bæjarhátíðin „Hjarta Hafnarfjarðar“ hefst í Bæjarbíó fimmtudaginn 29. júní. Blásið er til veislunnar sjöunda árið í röð og hefur hátíðin vaxið og dafnað með hverju árinu og er í dag orðin ein stærsta og lengsta tónlistarhátíð landsins.
Hafnfirski stórsöngvarinn, Björgvin Halldórsson, mun opna hátíðina með tónleikum annað kvöld en kl. 17 mun útisvæði Hjarta Hafnarfjarðar opna fyrir gesti og gangandi. Björgvin hefur frá upphafi Hjarta Hafnarfjarðar verið ómissandi partur af hátíðarhöldunum og er eini listamaðurinn sem hefur alltaf tekið þátt.
Nokkur stærstu nöfn íslenskrar dægurtónlistar stíga á stokk
Dagskrá Hjarta Hafnarfjarðar í ár er glæsileg eins og alltaf og á henni munu koma fram nokkur stærstu nöfn íslenskrar dægurtónlistar síðustu áratuga. Má þar til viðbótar við sjálfan Björgvin Halldórsson meðal annars nefna Jón Jónsson, Stuðmenn, Bríeti, Klöru Elíasar, Unu Torfa, Eyþór Inga og Margréti Eir. Þessi lengsta tónlistarhátíð landsins er framtak þeirra Páls Eyjólfssonar og Péturs Stephensen sem hafa rekið menningarhúsið Bæjarbíó síðustu ár með jákvæðum og góðum áhrifum á hafnfirskt lista- og menningarlíf, verslun og þjónustu í bænum.
Gestir og gagnandi eru hvattir til að taka skemmtilega mynd af sér í hjarta Hafnarfjarðar myllumerkja myndina með #hjartahafnarfjarðar og merkja hvorutveggja Hafnarfjarðarbæ og Bæjarbíó á Facebook og Instagram einfaldlega til að dreifa þeirri gleði og hamingju sem tónlist og félagsskapur færir sem víðast.
Nánari upplýsingar: https://www.hjartahafnarfjardar.is/