Veðurspá um norðvestanhríð norðan og vestanlands er að ganga eftir. Veðrið er núna í hámarki á Vestfjörðum, og nær hámarki á Breiðafirði um kl 17 og um kl 18 á höfuðborgarsvæðnu.
Eins og sést á þessari gervitunglamynd að þá er lægðin er búin að snúa rækilega upp á sig. Hvítur litur sýnir háský og gulur litirnir sýna lægri ský. Þarna sést einnig vel élja eða skúra klakkar suður af lægðinni.
Veðurhorfur á landinu
Norðvestan og vestan 15-23 m/s en 20-28 norðvestantil. Talsverð eða mikil slydda eða snjókoma á norðvestanverðu landinu og víða slydduél eða él syðra. Hægari vindur um austanvert landið og úrkomulítið á Austurlandi. Dregur úr vindi og úrkomu í kvöld og nótt.
Suðvestan og sunnan 8-15 m/s og skúrir eða slydduél á morgun, en hægara, þurrt og víða bjart norðaustantil. Hiti 0 til 8 stig, hlýjast á Suðausturlandi.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Gengur í austan og norðaustan 10-18 m/s en 18-23 m/s suðaustantil. Rigning á austanverðu landinu, annars úrkomulítið. Hiti víða 2 til 7 stig.
Á föstudag:
Norðan og norðaustan 8-15 m/s og rigning, en bjart með köflum um sunnanvert landið. Hiti 4 til 9 stig.
Á laugardag og sunnudag:
Norðanáttir og víða rigning, en þurrt og víða bjart sunnantil á landinu. Hiti 2 til 9 stig, hlýjast á Suðausturlandi.
Á mánudag:
Útlit fyrir áframhaldandi norðanáttir með éljum eða slydduéljum, en bjartviðri syðra. Kólnar heldur.