Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar boðar undirbúning verkfallsaðgerða ef fundur í kjaraviðræðum félagsins við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu á mánudag ber ekki árangur.
Um 2.300 félagar í Eflingu starfa við umönnun á hjúkrunarheimilum en kjarasamningar hafa verið lausir frá því í vor. Þetta kemur fram á vef ríkisútvarpsins.
Helsta krafa Eflingar er að mönnun á hjúkrunarheimilunum verði bætt.
„Undirmönnun og ofurálag er viðvarandi vandamál á hjúkrunarheimilum og hefur ömurleg áhrif á starfsaðstæður Eflingarfélaga,“ segir Sólveig Anna.
Hún segist telja það allra hag að bætt verði úr þessu. Að öðru leyti er farið fram á sambærilegar launahækkanir og í síðustu kjarasamningum annarra hópa.
Nokkrir fundir hafa verið haldnir í deilunni og sá næsti er boðaður á mánudag hjá ríkissáttasemjara. Sólveig Anna segir að þar komi í ljós hvort einhver lausn er í sjónmáli eða hvort Efling slíti viðræðunum.