Með dómi Landsréttar var Samkeppniseftirlitið sýknað af kröfu Samskipa hf. þess efnis að ógiltur yrði fyrri úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála, þar sem kæru fyrirtækisins var vísað frá nefndinni.
Tildrög málsins voru þau að Samskip kærði sátt sem Eimskipafélag Íslands hf. (Eimskip) gerði 16. júní 2021 við Samkeppniseftirlitið, þar sem fyrirtækið viðurkenndi alvarlegt samráð við Samskip, greiddi sektir og skuldbatt sig meðal annars til að hætta öllu viðskiptalegu samstarfi við Samskip. Í kæru sinni til áfrýjunarnefndar krafðist Samskip þess að felld yrðu úr gildi umrædd skilyrði um að binda enda á umrætt samstarf Eimskips við Samskip.
Áfrýjunarefnd samkeppnismála vísaði kæru Samskipa frá á þeim grunni að Samskip hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. úrskurð frá 2. desember 2021.
Samskip vildi ekki una úrskurðinum og stefndi Samkeppniseftirlitinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Með dómi héraðdóms frá 18. nóvember 2022 snéri dómurinn niðurstöðu áfrýjunarnefndar og taldi að Samskip gæti borið lögmæti sáttar Eimskips undir áfrýjunarnefnd.
Í dómi Landsréttar í dag kemur hins vegar fram að sáttin hafi verið skuldbindandi fyrir Eimskip en ekki Samskip. Í hlutarins eðli liggi að sáttin hafi verið til þess fallin að takmarka samstarf fyrirtækjanna sem hafi sætt rannsókn Samkeppniseftirlitsins. Í þessu sambandi er tekið fram að Samkeppniseftirlitið og það fyrirtæki sem geri sátt verði að geta treyst því að með gerð sáttar sé máli fyrirtækisins lokið. Aðili að samráðsmáli, sem sé til rannsóknar, og hafi ekki viðurkennt brot geti ekki talist aðili að sátt þess aðila sem hafi viðurkennt brot og undirgengist greiðslu sektar. Meðal annars með vísan til þessa voru Samskip ekki talin hafa sýnt fram á að fyrirtækið hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn um hvaða skuldbindingu Eimskip hefði gengist undir gagnvart Samkeppniseftirlitinu með sáttinni.
Samskip fær frest til að greiða 4200 milljóna sekt vegna brota á samkeppnislögum
,,Sjúklegt hugarfar spillingar og græðgi“ – samráð Eimskips og Samskipa