Þrír ungir menn voru handteknir fyrir ólæti i Kópavogi í nótt, en þeir létu mjög ófriðlega eftir að lögreglan stöðvaði för ökumanns í bænum sem var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
Þremenningarnir, sem voru farþegar í fyrrnefndri bifreið, reyndu að tálma störf lögreglunnar á vettvangi og höfðu uppi grófar hótanir í garð lögreglumanna. Eftir að ökumaðurinn var handtekinn fóru þremenningarnir síðan að lögreglustöðinni í Kópavogi og héldu þar uppteknum hætti, en svo fór að þeir voru allir handteknir.
Háttsemi mannanna fólst m.a. í því að hrækja á lögreglumenn, berja og sparka i lögreglubíla og reyna ítrekað að frelsa handtekinn mann. Á meðal málsgagna eru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi.