Efling hafnar alfarið afskiptum Samtaka atvinnulífsins af kjaradeilu félagsins við Reykjavíkurborg vegna Eflingarfélaga sem starfa á lægstu launum hjá borginni. Félagsmenn Eflingar hjá borginni fara með sjálfstætt umboð til viðræðna við sinn atvinnurekanda sem varið er af lögum og stjórnarskrá. Efling mótmælir því að ótengdir aðilar hlutist til um samningsrétt þeirra.
Villandi málflutningur
Villandi málflutningi í pantaðri umfjöllun og pistli framkvæmdastjóra SA í Fréttablaðinu í dag er enn fremur vísað á bug. Þær tillögur sem Efling hefur lagt fram um kjaraleiðréttingu láglaunafólks hjá borginni eru byggðar á þekktri fyrirmynd sem Reykjavíkurborg innleiddi að eigin frumkvæði árið 2005. Þær breytingar leiddu hvorki til hörmunga, óstöðugleika né kjaraskerðinga á íslenskum vinnumarkaði. Engin ástæða er til að ætla að sams konar breyting árið 2020 myndi hafa slíkar afleiðingar. Fullyrðingar um slíkt eru hræðsluáróður.
Samtök atvinnulífsins hafa áður leikið þann leik að uppreikna kröfur stéttarfélaga upp í hæstu hæðir með talnabrellum. Er þar skemmst að minnast villandi umfjöllunar SA um launakröfur Eflingar og Starfsgreinasambandsins í febrúar 2019 vegna kjaraviðræðna sem þá stóðu yfir. Málflutningur samtakanna nú er sama marki brenndur
Hófsamt skref í leiðréttingarátt
Komið hefur skýrt fram í gögnum sem Efling hefur kynnt opinberlega að kjaraleiðrétting láglaunafólks hjá borginni samkvæmt tillögu Eflingar mynda fela í sér stiglækkandi hækkanir mánaðarlauna á bilinu 22 til 52 þúsund á mánuði, mest fyrir hina lægst launuðu og minnst fyrir hærra launaða á launabili Eflingar. Einnig hefur Efling lagt mat á þann kostnað sem myndi fylgja leiðréttingunni og kynnt opinberlega. Hann rúmast vel innan rekstrarafgangs borgarinnar á samningstímanum og myndi hækka heildarlaunakostnað hennar um á bilinu 0,39-1,87%.
Það tilboð sem Efling hefur lagt til við borgina er í fullu samræmi við hugmyndafræði kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru í apríl 2019, en þar var leitast við að nýta fyrirliggjandi svigrúm til hækkunar lægstu launa umfram önnur laun. Myndræn framsetning lýstir því best (sjá meðfylgjandi mynd 1 og mynd 2).
Samtök atvinnulífsins og borgarmeirihlutinn í eina sæng
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags, sagði: „Það er stórfenglegt að verða vitni að samtryggingu yfirstéttarinnar gegn hagsmunum láglaunafólks, þar sem markaðsrétttrúnaður Samtaka atvinnulífsins og gervi-félagshyggja Reykjavíkurborgar ganga í eina sæng. Ég hef fréttir fyrir fulltrúa þessa bandalags: Það er mikill misskilningur að kjarasamningar Eflingar á almennum vinnumarkaði í apríl 2019 hafi afnumið samningsrétt láglaunafólks hjá sveitarfélögum. Við ræddum um þá samninganna vorið 2019 sem vopnahléslínu. Baráttu okkar fyrir bættum kjörum félagsmanna lýkur ekki fyrr en þeir geta lifað mannsæmandi lífi af launum sínum.“