Í dag (29. jan) kl. 04:31 varð jarðskjálfti 3,5 að stærð 1,9 km N af Grindavík. Veðurstofunnni hefur borist fleiri tilkynningar um að fólk hafi orðið vart við skjálftann. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt. Kl. 04:59 var skjálfti 3,2 að stærð á svipuðum slóðum. Möguleg kvikusöfnun undir fjallinu Þorbirni NV við Grindavík. Landris hefur mælst þar undanfarna daga og jarðskjálftahrina verið í gangi á svæðinu á sama tíma. Óvissustig Almannavarna hefur verið virkjað. Sjá nánar: Möguleg kvikusöfnum við Þorbjörn á Reykjanesi
Áfram þensla við fjallið Þorbjörn og landris komið í rúma þrjá sentimetra
Nýjum mælum til vöktunar komið fyrir og búast má við áframhaldandi jarðskjálftavirkni á svæðinu. Næsti samráðsfundur vísindamanna haldinn á fimmtudag
Mælar Veðurstofunnar greina áframhaldandi landris við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga. Risið er á sama hraða og síðustu daga, 3-4mm á dag, sem er óvenju hratt. „Þróunin síðasta sólarhringinn er bara mjög svipuð og hún hefur verið frá upphafi. Það er stöðugt landris, þrír til fjórir millímetrar á dag, og það sem við sjáum í morgun er að það hefur haldið áfram,“ segir Benedikt Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofu Íslands. Hann segir að búast megi við áframhaldandi skjálftavirkni á svæðinu. Benedikt ásamt öðrum sérfræðingum Veðurstofunnar hefur í dag unnið að uppsetningu á nýjum mælum til vöktunar á svæðinu í kringum Grindavík. „Það er stefnan að setja upp alla vega tvo mæla, einn uppi á fjallinu Þorbirni og síðan á ákjósanlegum stað vestan við fjallið“, segir Benedikt.
Áfram er unnið úr frá þeim sviðsmyndum sem vísindamenn telja mögulegar og birtar hafa verið í fréttum, en sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist grannt með þróun mála og safnar gögnum til frekari greiningar. Næsti formlegi samráðsfundur vísindamanna er fyrirhugaður á fimmtudaginn.
Talsverður fjöldi skjálfta hefur mælst á svæðinu frá miðnætti 26. janúar til dagsins í dag.