Uppfært: Maðurinn sem grófst undir í snjóflóði sem féll í Móskarðshnúkum á fyrsta tímanum í dag er fundinn. Verið er að flytja hann á Landspítalann með þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem er þangað væntanleg á næstu mínútum.
Uppfært: Einn maður er talinn hafa grafist undir snjóflóðinu sem féll í Móskarðshnúkum um eitt leytið í dag. Annar maður lenti í snjóflóðinu en grófst ekki undir. Mennirnir tveir voru ásamt þriðja manninum á göngu á staðnum.
Allar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu, auk fleiri viðbragðsaðila, hafa verið kallaðar út vegna snjóflóðs sem féll í Móskarðshnúkum í Esjunni nú fyrri skömmu. Tveir eru taldir hafa lent í flóðinu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum að senda allt viðbragð sem við getum sent á vettvang,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Rúv greindi fyrst frá
Ásgeir segir í viðtali við Rúv að aðgerðarstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið til starfa og verið er að setja upp vettvangsstjórnun. Þá er slökkvilið höfuðborgarsvæðisins einnig á leiðinni en það hefur mikla reynslu í svona hlutum. „Við treystum síðan náttúrlega mikið á björgunarsveitirnar.“ Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá slysavarnarfélaginu Landsbjörg sagði að um lítið flóð sé að ræða, en ekki var ljóst hvort flóðið hafi fallið nálægt gönguleiðum. Talið er að flóðið hafi fallið nærri Móskarðshnúkum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út.