Það eru mikil sóknarfæri nú sem fyrr í innlendri matvælaframleiðslu
Fyrir nokkrum dögum sendum við þingmenn Miðflokksins frá okkur tillögur og spurningar vegna núverandi stöðu heilbrigðis- og efnahagsmála. Við tókum sérstaklega fram í tillögunum að við teljum nauðsynlegt að stutt verði við íslenska matvælaframleiðslu með greiðslum til bænda og starfsumhverfi greinarinnar endurskoðað hið fyrsta. Til að setja þetta í samhengi þá er sem dæmi ljóst að skortur verður á íslensku grænmeti í verslunum og það er því full ástæða til þess að grípa til aðgerða nú þegar. Einnig er fyrirséð að aðföng til bænda munu hækka og því nauðsynlegt að efla íslenska framleiðslu á öllum sviðum þannig að íslensk matvælaframleiðsla verði sjálfbær.
Fyrir nokkrum dögum skoraði verslunarkeðjan Samkaup á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gera það sem í valdi hans stendur til þess að auka grænmetisræktun hér á landi. Flestir ef ekki allir landsmenn geta tekið undir þessa áskorun til ráðherrans og ekki er eftir neinu að bíða. Ráðherra hefur sagt að hann sé í viðræðum við bændasamtökin og þá sérstaklega vegna grænmetisræktunar, útirækt og ylrækt, að samningur gæti verið klár í næstu viku. Landbúnaðarráðherra hefur einnig sagt að verið sé að endurskoða búvörusamninginn sérstaklega með þessa þætti í huga, samningur sem var settur fram 19. febrúar 2016 með gildistöku frá 1. janúar 2017 og fram til 31. desember 2026.
Það er því ekki eftir neinu að bíða, einungis þarf að taka samninginn upp úr skúffu landbúnaðarmála, ramminn er að mestu klár en standa þarf við það mikilvæga atriði sem fram kemur í samningnum að niðurgreiðsla flutningskostnaðar rafmagns verði 95% af heildarverðinu, jafnvel kalla aðstæður í dag á að niðurgreiðslan verði 100%, allavega um stund en í dag nemur niðurgreiðslan um 86%.
Eitt verður að minnast á í lok þessara skrifa vegna orða landbúnaðarráðherra þar sem hann lét hafa eftir sér að þær 17 mótvægisaðgerðir sem kynntar voru til að styrkja matvælaöryggi landsmanna eru vissulega tilkomnar í fyrsta sinn enda hefur aldrei áður verið innflutningur á hráu ófrystu kjöti og eggjum. En þá felast líka aukin tækifæri í því að auka fjárhagslega innspýtingu og stórefla stuðning til íslenskra bænda. Ekki þarf að skipa hópa eða nefndir, bændur bíða klárir.
Það eru mikil sóknarfæri nú sem fyrr í innlendri matvælaframleiðslu, bændur eru tilbúnir, þeir búa yfir einstakri þekkingu og vita best hvað felst í hugtakinu matvælaöryggi. Það er stjórnvalda að sjá til þess að þeir hafi færi til þess að ganga til verka, núna eru bændur svo sannarlega í framlínunni.
Höfundur: Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi