Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) í samstarfi við skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu hélt fræðslufund um jafnlaunamál 27.-28. maí sl. Megintilgangur fundarins var að ræða aðgerðir Evrópulanda á sviði jafnlaunamála og miðla upplýsingum um lögin um jafnlaunavottun og reynslu Íslendinga af innleiðingu þeirra.
Aðildarríki ESB hafa gripið til mismunandi aðgerða til að auka gagnsæi við launasetningu með misjöfnun árangri. Í opnunarávarpi fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB kom m.a. fram að helstu hindranir í vegi þess að tryggja jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf væri m.a. ógagnsæi launaákvarðana og erfiðleikar við að skilgreina sambærileg störf. Lögin um jafnlaunavottun taka á báðum þáttum eins og kom fram í framsögum sérfræðinga skrifstofu jafnréttismála og skrifstofu kjara- og mannauðsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu um lögin og tilkomu þeirra, þróun og inntak jafnlaunastaðalsins, og reynsluna af uppsetningu jafnlaunakerfa samkvæmt jafnlaunastaðli.
Kynntar voru helstu niðurstöður nýrrar könnunar um innleiðingarferli jafnlaunavottunar meðal fyrirtækja og stofnana sem hlutu jafnlaunavottun fyrir 30. apríl sl. Niðurstöðurnar sýndu m.a. að 81% svarenda voru ánægð með að hafa innleitt jafnlaunakerfið. Þar af voru 61% mjög ánægð. Jafnframt kom í ljós að kostnaður var neðarlega á listanum yfir helstu áskoranir við innleiðingu og þriðjungur svarenda sagðist hafa hugað að fleiri jafnréttisþáttum en launamun svo sem hlutfalli kvenna í stjórnendateymum, stjórnum og starfsþróun, sem gefur til kynna að innleiðingin komi jafnréttismálum í auknum mæli á dagskrá. Niðurstöðurnar og reynsla tryggingafélagsins Sjóvá-Almennra af innleiðingu laganna vakti fjölda spurninga en nokkur þátttökulandanna hafa nú þegar sótt fyrirmyndir til jafnlaunalaganna fyrir lagafrumvörp eða stjórnvaldsaðgerðir í sínum heimalöndum.
Að lokum var rætt um mikilvægi þess að aðgerðir til að uppræta kynbundinn launamun fari saman með öðrum jafnréttisaðgerðum og hvernig staðalmyndir kynjanna hafa áhrif á launamun kynjanna með vísan í þær skýribreytur sem notaðar eru við greiningu á launamun kynjanna sbr. atvinnugrein, menntun, aldur, starfsreynsla og vinnutími. Launamunur verði ekki upprættur fyrr en hefðbundnar staðalmyndir kynjanna, sem ráða miklu um náms- og starfsval og launamyndun kvenna- og karlastétta, heyra sögunni til.
Alls tóku 38 sérfræðingar frá 12 aðildarlöndum ESB og Íslandi þátt í fundinum frá ráðuneytum, fræði- og rannsóknarstofnunum og var fundurinn liður í framkvæmd aðgerðaráætlunar ESB fyrir tímabilið 2017 til 2019 um aðgerðir til að leiðrétta launamun kynjanna.
Niðurstöður könnunar á innleiðingarferli jafnlaunavottunar
Aðgerðaráætlun ESB fyrir tímabilið 2017 til 2019 um aðgerðir til að leiðrétta kynbundinn launamun