Brotaþolar töluvert yngri en grunaðir – Lögreglunni bárust 41 tilkynningar um nauðganir
Ríkislögreglustjóri hefur birt skýrslu um fjölda tilkynninga vegna kynferðisofbeldis fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins á vef lögreglunnar. Alls voru tilkynnt 149 kynferðisbrot til lögreglu, sem er tæplega 13% færri brot en meðaltal á sama tímabili síðustu þrjú árin á undan. Ef aðeins er horft til sama tímabils síðasta árs fjölgaði tilkynningum um tæplega 11% miðað við fyrra ár, aðallega vegna fjölgunar tilkynninga um kynferðislega áreitni og stafræn kynferðisbrot.
Á þessu tímabili bárust lögreglunni 41 tilkynning um nauðgun sem samsvarar 14 % fækkun að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár á undan. Ef miðað er við síðasta ár þá stendur fjöldi tilkynninga nánast í stað. Tilkynnt kynferðisbrot gegn börnum voru 28 talsins og blygðunarsemisbrot voru 13 talsins.
Meðalfjöldi tilkynntra brota til lögreglu, burtséð frá því hvenær þau áttu sér stað, fyrstu þrjá mánuði ársins voru um 11 brot á viku.
Brotaþolar töluvert yngri en grunaðir
Meðalaldur grunaðra var 33 ár, þar af voru 11% undir 18 ára. Fjöldi grunaðra í kynferðisbrotum var 147, þar af um 91% karlkyns. Fjöldi brotaþola var 161 og þar af 86% kvenkyns á tímabilinu. Meðalaldur brotaþola var 22 ár og voru 43% þeirra undir 18 ára í öllum tilkynntum kynferðisbrotamálum. Þannig er rúmlega tíu ára aldursmunur á meðalaldri brotaþola og grunaðra.
Bætt skráning kynferðisbrota
Grevio, eftirlitsnefnd með framkvæmd Istanbúlsamningsins, hefur hvatt til þess að skráning mála hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum verði bætt og samræmd til að auka yfirsýn.
Í samræmi við þetta hefur skráning kynferðisbrota í málaskrá lögreglunnar verið gerð markvissari. Í júní 2021 voru settar leiðbeiningar um skráningu stafrænna kynferðisbrota og í janúar 2022 voru settar reglur um skylduskráningu brotaþola. Í september og október 2023 voru settar reglur um bætta skráningu á aðferðum, þar með talið vegna kynferðisbrota, líkamsárása og manndrápa.
Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112. Á ofbeldisgátt 112.is má finna leiðarvísir um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu.