Framúrakstur er nú bannaður í Mosfellsdal
Vegagerðin hófst handa s.l. fimmtudag við að mála heila línu á þeim kafla Þingvallavegar sem liggur um Mosfellsdal. Víghóll, íbúasamtök Mosfellsdals, fagna þessu framtaki. Þar með verður framúrakstur bannaður á kafla í Mosfellsdalnum þar sem fjöldi afleggjara liggur að veginum.
Á miðvikudeginum gáfu samtökin út yfirlýsingu þess efnis að ef ekki yrði málað á næstu dögum væru íbúar tilbúnir með málningarfötur og tækju málin í eigin hendur. Banaslys varð á vegkaflanum sl. laugardag og ákvað Vegagerðin í kjölfarið að banna framúrakstur.
Vegagerðin ákvað að bregðast strax við með þessum hætti. Vegagerðin hefur unnið að deiliskipulagi ásamt sveitarstjórn þar sem gert er ráð fyrir tveimur til þremur hringtorgum á veginum. Í þá vinnu verður þó líklegast ekki farið fyrr en á næsta ári. Deiliskipulagið er enn í auglýsingu.
Á íbúafundi sem íbúasamtökin Víghóll í Mosfellsdal stóð fyrir fyrr í vikunni, kom fram í ályktun fundarins að íbúar væru tilbúnir með málningarrúlluna og mundu ganga í verkið sjálfir ef áætlun Vegagerðarinnar um að banna framúrakstur á Þingvallavegi gengi ekki eftir. Til fundarins var efnt til að ræða umferðaröryggismál í Mosfellsdal en um helgina varð banaslys á Þingvallavegi þegar tveir bílar rákust saman við framúrakstur.
Í ályktun stjórnar Víghóls kom fram að fyrsta krafa væri að málaðar verði heilar línur og þar af leiðandi framúrakstur bannaður í Mosfellsdal. Vegagerðin samþykkti að framkvæma það eins fljótt og auðið væri. Ef það mundi bregðast voru íbúar tilbúnir með málningarrúlluna og ætluðu að ganga í verkið sjálfir. Kantlínur sem banna stöðvun í vegbrún verða málaðar fyrir haustið.
Í ályktunni var ennfremur krafa um að sett yrði upp þéttbýlishlið beggja vegna dalsins og hefur Vegagerðin samþykkt að fara í undirbúningsvinnu við gerð þeirra. Háværar kröfur voru um að lækka hámarkshraða niður í 50 meðan ekki er búið að fara í aðrar lausnir eins og hringtorg og þéttbýlishlið.
Kröfur eru uppi um að fá hraðamyndavélar strax upp. Bæjarstjóri tekur vel í það og styður okkur í því segir í ályktuninni. En það yrði að vera samstarfsverkefni við lögreglu, vegagerðar og umferðaröryggisráðs.