Vitundarvakningu Taktu skrefið, Neyðarlínunnar og ríkislögreglustjóra gegn stafrænum kynferðislegum samskiptum fullorðinna við börn hrint úr vör.
Spurt er hvort þú hafir eitthvað að óttast?
- Bent er á að stafræn kynferðisleg samskipti fullorðinna við börn eru ólögleg og kunna að vera refsiverð.
- Vakin er athygli á alvarlegum afleiðingum hegðunarinnar fyrir gerendur.
- Minnt er á að hegðuninni er hægt að breyta og aðstoð er til staðar hjá Taktu skrefið.
- Auglýsingar munu birtast á netinu og víðar á næstu dögum.
Taktu skrefið, Neyðarlínan og lögreglan hvetja í nýrri herferð þá sem skoða, leita að, sýna, vista, eiga eða dreifa kynferðislegu efni af börnum til að hætta því. Skilaboð sérstakrar vitundarvakningar eru að fullorðið fólk sem hefur áhuga á kynferðislegu efni af börnum er á villigötum og mikilvægt er að þau láti af þeirri skaðlegu hegðun. Ráði viðkomandi ekki við að gera það sjálfur, er hægt að fá aðstoð til að breyta hegðun sinni hjá Taktu skrefið.
Skilaboðunum er beint sérstaklega til karlmanna á aldrinum 18-45 ára. Samkvæmt innlendri og erlendri tölfræði er það sá hópur sem fremur flest kynferðisbrot. Þannig voru 67% grunaðra í málum tilkynntum til lögreglu fyrstu sex mánuði ársins 2023 á þessum aldri og þar af rúmlega 93% karlar.
Á næstunni verða því birtar auglýsingar, sem eru innblásnar af herferðum Stop it now og Lucy Faithfull Foundation á Bretlandi. Markmiðið er að fá þá sem kunna að fremja slík brot til að velta fyrir sér hverjar afleiðingarnar gætu orðið fyrir þá sjálfa. Þar er m.a. spurt hvort áhorfandinn hafi eitthvað að óttast, hann minntur á að ef hann er að skoða kynferðislegt efni af börnum þá hefur hann ástæðu til en hegðuninni er hægt að breyta með aðstoð sérfræðinga hjá Taktu skrefið.
Þjónusta Taktu skrefsins er styrkt af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu. Fyrsta viðtal kostar einungis 3.000 kr.
María Rún Bjarnadóttir, verkefnastjóri netöryggis hjá ríkislögreglustjóra: „Það er ekki náttúrulögmál að á internetinu viðgangist dreifing á barnaníði og kynferðisleg samskipti við börn. Gerendur í þessum málum má finna á öllum stigum og sviðum samfélagsins, og geta verið virkir og jákvæðir þátttakendur í samfélaginu samhliða því að sýna áhuga á stafrænum kynferðislegum samskiptum við börn. Mikilvægt er að þeir horfist í augu við hversu alvarlegar afleiðingar hegðunin getur haft og leiti sér aðstoðar við að breyta þessari hegðun sinni.“
Jóhanna Dagbjartsdóttir, sálfræðingur hjá Taktu skrefið: „Við höfum aðstoðað fjölbreyttan hóp einstaklinga. Fólk sem hefur áhyggjur af kynhegðun sinni eða hefur verið sakað um óæskilega kynhegðun, fólk sem vill taka ábyrgð og breyta hegðun sinni. Því hvet ég öll þau sem hafa áhyggjur af hegðun sinni og mögulegum afleiðingum hennar að hafa samband. Það er sannarlega hægt að aðstoða þá sem leita sér hjálpar, áður en það er of seint.“
Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar: „Við hjá Neyðarlínunni höfum lagt okkur fram um að hjálpa fólki í vanda. Í aldarfjórðung höfum við móttekið neyðarköll vegna ofbeldis og þykir okkur vera kominn tími til að taka þátt í forvörnum til að draga úr líkum á ofbeldinu. Lykillinn að því að draga úr ofbeldi er að fá gerendur til að hætta að beita ofbeldi og því hvetjum við þá til að taka skrefið og leita sér aðstoðar ef þeir geta ekki hætt því sjálfir. Á 112.is eru aðgengilegar upplýsingar og sjálfspróf fyrir þau sem hafa áhyggjur af eigin hegðun. Þar er að finna ráð um næstu skref og á taktuskrefid.is er hægt að fá aðstoð sérfræðinga við að breyta hegðunarmynstri sínu.”