Vesturbyggð hefur hlotið jafnlaunavottun þar sem staðfest er að jafnlaunakerfi sveitarfélagsins samræmist kröfum Jafnlaunastaðalsins ÍST85:2012. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kyndbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Með innleiðingu jafnlaunavottunar hjá Vesturbyggð í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 hefur sveitarfélagið komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Í jafnréttisáætlun Vesturbyggðar kemur fram að allir sem starfa há Vesturbyggð skuli fá greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni. Jafnlaunavottunin er mikilvægur áfangi í að vinna að því markmiði.
Starfsfólk Vesturbyggðar hefur unnið mikla og góða vinnu við að undirbúa sveitarfélagið fyrir jafnlaunavottunina, segir í frétt um málið á vefsíðu sveitarfélagsins, en það naut liðsinnis Attentus – Mannauður og ráðgjöf við undirbúning og skipulag stjórnunarkerfisins. BSI group (British Standards Institution) framkvæmdi úttektir og vottaði jafnlaunakerfi sveitarfélagsins.
Jafnréttisstofa hefur heimilað Vesturbyggð notkun jafnlaunamerkisins skv. reglum nr. 1030/2017 um notkun jafnlaunamerkis.