Beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um heimild Íslands til að beita reglum um viðbótartryggingar varðandi salmonellu vegna innflutnings á svína- og nautakjöti, var samþykkt á fundi sameiginlegu EES nefndarinnar 25. október sl. Ráðherra segir þennan áfanga bæði ánægjulegan og mikilvægan fyrir matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.
Þessi heimild þýðir að þessum matvælunum skal alltaf fylgja vottorð sem byggja á salmonellu rannsóknum og sýna að hún hafi ekki greinst. Í því felst að framleiðandi eða sendandi vörunnar taki sýni úr öllum sendingum á svína- og nautakjöti. Ef varan er laus við salmonellu er gefið út vottorð þess efnis. Án slíks vottorðs verður innflutningur ekki heimilaður.
Í upphafi ársins 2019 samþykkti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild Íslands til að beita reglum um viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kjúklingakjöti, kalkúnum og eggjum. Í september sl. undirritaði Kristján Þór reglugerð sem kveður á um innleiðingu þeirra.
Hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda
Viðbótartryggingarnar eru unnar í samræmi við aðgerðaáætlun í 17 liðum um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Áætlunin var lögð fram af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og var hún samþykkt sem þingsályktun hinn 19. júní sl. Unnið hefur verið að mótun og framgangi þeirra aðgerða í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá því í desember 2017 og er sú vinna í forgangi í ráðuneytinu.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Þetta eru afskaplega ánægjulegur og mikilvægur áfangi og er afrakstur mikillar vinnu sem ráðuneytið hefur leitt í samstarfi við Matvælastofnun. Ísland hefur á þessu ári fengið heimild til að beita reglum um viðbótartryggingar varðandi innflutning á kjúklingakjöti, kalkúnum, eggjum, svína- og nautakjöti en nágrannalönd Íslands hafa haft slíkar heimildir um árabil. Þannig hefur okkur á þessum skamma tíma tekist að byggja upp raunhæfar og lögmætar varnir fyrir matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.“