Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. desember, en alls var tilkynnt um 52 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 19. desember kl. 13.51 rákust saman samtals fimm bílar í tveimur árekstrum á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ, skammt norðan við verslunina Útilegumaðurinn. Svo virðist sem bifreið hafi hafnað í snjóskafli og setið þar föst er önnur bifreið komið aðvífandi og ók á hana og síðan á þá þriðju sem hafði hægt á sér vegna slæmra aðstæðna á vettvangi, en þarna var mikil hálka, aftakaveður og ekkert skyggni. Í kjölfarið rákust saman tvær aðrar bifreiðar þegar ökumaður annarrar þeirra reyndi að forða árekstri við þær þrjár fyrrnefndu. Einn var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 20. desember kl. 8 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Nýbýlavegar og Dalvegar í Kópavogi. Annar ökumannanna er grunaður um að hafa ekið gegn rauðu ljósi. Einn var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 21. desember. Kl. 7.04 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Bústaðavegar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Annar ökumannanna er grunaður um að hafa ekið gegn rauðu ljósi. Einn var fluttur á slysadeild. Kl. 9.24 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Ægisgötu í Reykjavík og hafnaði hún í snjóskafli og síðan á húsvegg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.37 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Fjarðarhrauni í Hafnarfirði, á móts við American Style. Mikil og hæg umferð var um Fjarðarhraun á þessum tíma. Einn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 23. desember kl. 19.43 var bifreið ekið vestur Miklubraut í Reykjavík, við Rauðarárstíg, og á vegrið og gátskjöld. Talið er ökumaðurinn hafi sofnað við aksturinn. Hann var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 24. desember kl. 17.54 var bifreið ekið á afrein af Fífuhvammsvegi í Kópavogi, inn á Hafnarfjarðarveg, og framan á aðra bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Snjór og mikil hálka var á vettvangi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.