,,Úr myndasafni mínu frá árinu 1993 – Ég neita því ekki að oft á tíðum misbauð mér og fleirum hvernig gengið var um þessa auðlind þegar ég var til sjós, ekki síst þegar færibandið gekk svona dag eftir dag.“
Þannig byrjar frásögn Andrésar Skúlasonar um meint stórfellt brottkast og birtir myndband frá því að hann var á togara og vísar til þess að hann sé ekki sá eini sem að eigi slík myndbönd.
,,Svona háttaði því miður sömuleiðis til með fleiri fisktegundir m.a. fengu smákarfi og ýsa að fljúga út í damminn í stórum stíl.
En engin gerði neitt í málunum og svo háttar því líkast til enn á mest öllum togaraflotanum og ekki síst frystiskipaflotanum.
Nú þegar verið er að endurnýja skip og búnað og því haldið jafnhliða á lofti að hér sé sjálfbærasta og ábyrgasta fiskveiðistjórn í heimi þá ættu menn kannski að hugsa sinn gang áður en gasprað er meira á þeim nótum.
Ég held núna þegar sjávarútvegsráðherra segist ætla að kanna málið með brottkastið að það ætti að reyna að búa til eitthvað alvöru hvatakerfi sem heldur vatni svo allur afli skili sér í land og skipin séu þá jafnhliða útbúin til að koma með allan afla / verðmæti að landi.
Það að enn sé verið að henda fiski fyrir borð m.a. fyrir nýrri afla eins og tíðkast hefur á sumum uppsjávarskipum er svo auðvitað sértækt og glæpsamlegt athæfi. Ég er sem sagt fjarri því stoltur að setja þetta á alnetið en ég sé ekki tilganginn með því að fela þetta um aldur og ævi enda er umræðunni um brottkastið bara alls ekki lokið og fjarri því er ég sá eini sem hefur birt slík myndbönd.“