Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við endurbættar snjóflóðavarnir á Flateyri í sumar að því er fram kemur í frétt Bæjarins besta, bb.is
Kristín Martha Hákonardóttir, snjóflóðaverkfræðingur hjá Verkís, hefur leitt hönnun endurbættra snjóflóðavarna á Flateyri, í samstarfi við fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga.
Staða verksins þegar þetta er ritað er sú að verið er að ljúka við ritun frumathugunarskýrslu en teikningasett og líkön af vörnum liggja fyrir. Verk- og landslagshönnun er hafin. Þá er verið að ljúka gerð útboðsgagna vegna netgrinda.
Tillögur Verkís um endurbætur á snjóflóðavörnum eru eftirfarandi:
- Reistar verði þrjár keiluraðir ofan núverandi leiðigarða til þess að draga úr flóðhraða í bæði iðufaldi og þéttum kjarna áður en flóð lendir á leiðigarði og aðskilja iðufald og þéttan kjarna í flóði.
- Þvergarður milli leiðigarða verði hækkaður og endurbyggður brattur með lítillega breyttri legu, til þess að draga úr hættu á yfirflæði.
- Móta flóðrásir við báða leiðigarða, til þess að auka virka hæð leiðigarða og tryggja óhindrað rennsli snjóflóða meðfram görðunum og út í sjó.
- Byggja lágan en brattan leiðigarð ofan hafnar til þess að beina flóðum frá höfn.
- Setja upp um 2 km af snjósöfnunargrindum á Eyrarfjalli, til þess að draga úr tíðni flóða í byrjun vetrar úr upptakasvæðunum og þannig draga enn frekar úr hættu í byggð vegna iðufalds. Snjósöfnunargrindur munu einnig draga úr tíðni flóða úr upptakasvæði, svæði stórra og lítilla.
- Styrkja glugga- og dyraop sem snúa upp í hlíð, í öllum húsum á áhættusvæði B, með áherslu á hús efst á hættusvæðinu.
Þegar hefur verið ráðist í nokkur verk tengd framkvæmdinni:
- Haustið 2021 var flóðrás meðfram leiðigarði undan Innra-Bæjargili dýpkuð.
- Sumarið 2021 voru styrkingar fyrir glugga- og dyraop í tveimur húsum við Ólafstún hannaðar og samtal átt við íbúa um útfærslur.
- Sumarið 2022 voru settar upp snjósöfnunargrindur og veðurstöð á Eyrarfjalli, ofan Flateyrar í tilraunaskyni. Veðurstofan mun mæla skaflana en grindurnar virðast safna verulegu snjómagni. Fylgst verður með virkni þeirra í þrjá vetur.
- Veðurstofa Íslands hefur sett upp Veðurstöð á Eyrarfjalli, nýjan radar á leiðigarðinn undan Skollahvilft sem mælir hraða flóða sem falla úr gilinu, annan radar við höfn sem nemur flóð sem falla úr nokkrum giljum við Flateyri og snjódýptarmæla í Innra-Bæjargil og Miðhryggsgil.
Verkís vinnur úttekt á endurbótum á ofanflóðavörnum á Flateyri
Samhliða þessu mun Veðurstofan vinna að endurskoðun hættumats fyrir Flateyri.
Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð að kvöldi 14. janúar 2020. Annað þeirra féll úr Skollahvilft og hitt úr Innra-Bæjargili. Snjóflóðavarnargarðarnir í hlíðinni fyrir ofan Flateyri beindu báðum flóðum út í sjó en hluti flóðanna kastaðist yfir garðana. Þá féll einnig snjóflóð í Súgandafirði við Norðureyri um sama leyti.
Fyrir tuttugu og fimm árum, 26. október 1995, féll stórt snjóflóð úr Skollahvilft á byggðina á Flateyri. Flóðið féll að nóttu til og létu tuttugu manns lífið. Í kjölfarið var ákveðið að hefja uppbyggingu snjóflóðavarna á Íslandi á grundvelli nýrra áhættuviðmiða.
Fyrstu garðarnir til að rísa voru í hlíðinni fyrir ofan byggðina á Flateyri og var Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens, VST nú Verkís, fengin til verksins. Ráðgjafar VST í hönnun garðanna var NGI (Norges Geotekniske Insitut) og risu garðarnir árið 1997.
Vildu hafa varnargarðinn mun hærri en almennt tíðkaðist
Flosi Sigurðsson, byggingarverkfræðingur og viðskiptastjóri á Byggingarsviði Verkís, er einn af aðalhönnuðum snjóflóðavarnargarðanna á Flateyri. Rætt var við hann í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. Fyrir flóðin gerðu ítrustu kröfur ráð fyrir að 12-15 metra hár garður myndi duga til að vernda byggðina. Flosi segir að við hönnun varnanna hafi verið leitað til sérfræðinga á sviði ofanflóðavarna í Noregi, Austurríki, Sviss og víðar.
„Og við gerðum í raun miklu meiri kröfur heldur en almennt tíðkuðust í snjóflóðavörnum í Evrópu á þeim tíma. En eftir þessi mannskæðu snjóflóð 1994 og 1995 þá var þetta virkilega tekið af alvöru og Íslendingar settu sig í fararbrodd í kröfugerð um hættumat vegna snjóflóða. Og miðað við þessar breyttu forsendur sem við bjuggum okkur til eftir flóðin þá náðum við því í gegn að þessi varnargarður yrði 18-20 metra hár þar sem hann er hæstur,“, sagði Flosi í samtali við RÚV.
Fara til Flateyrar til að kanna aðstæður
Kristín Martha Hákonardóttir, byggingarverkfræðingur og doktor í straumfræði á Orkusviði Verkís, fór til Flateyrar til að kanna aðstæður. Rætt var við hana í Speglinum á Rás 1 og í tíufréttum RÚV í gær.
Flóðin eru mæld upp með dróna sem búinn er sérstökum skanna. Með nýrri tækni er unnt að mæla upp flóðin mun nákvæmar en nokkru sinni fyrr. Hún segir unnt að læra gríðarlega margt af flóðunum með nýrri tækni.
„Kannski það mikilvægasta sem við munum læra er um takmarkanir í reiknilíkönunum okkar. Nú munum við herma þessi flóð í að minnsta kosti tveimur mismunandi reiknilíkönum og sjá hverju við getum treyst þar og hverju ekki. Það á eftir að koma í ljós hvort eitthvað af flóðinu sem féll deginum áður á varnargarðinn og kom úr Innra-Bæjargili hafi verið ennþá ofan við garðinn og hugsanlega haft áhrif á garðinn og hvernig þetta flóð flæddi yfir garðinn,“ sagði Kristín Martha í samtali við RÚV.
Kristín Martha telur hugsanlegt að annað flóð hafi fallið úr Innra-Bæjargili fyrr um daginn 14. janúar og búið til eins konar stökkpall fyrir það næsta. Við hönnun varnargarða er ekki gert ráð fyrir að fleiri en eitt flóð falli á þá með stuttu millibili. Hún telur þörf á því að endurskoða varnargarðana á Flateyri.
„Alls staðar þar sem kemur í ljós að hættusvæði eru neðan við varnir í byggð, kannski eftirá, þá eru varnirnar endurskoðaðar en það verður kannski ekki farið í gagngera endurskoðun á því hvernig og hvort breyta eigi garðinum hérna því það á eftir að byggja varnir á svo mörgum stöðum á Íslandi. Það er mögulega brýnna, forgangsröðunin hefur að minnsta kosti verið svoleiðis,“ sagði Kristín Martha í samtali við Spegilinn.
Skoruðu á ríkisstjórnin að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna
Í viðtali við mbl.is vakti hún athygli á áskorun sem send var ríkisstjórn Íslands í maí á síðasta ári af sérfræðingum á sviði ofanflóðavarna auk fulltrúa sveitarfélaga sem hagsmuna hafa að gæta í þessum efnum þar sem hvatt var til þess að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna sem fyrst en upphaflega var gert ráð fyrir því að þeim áfanga yrði náð 2010. Minnti hún á að Ofanflóðasjóður hafi verið stofnaður 1997 til þess að ljúka mætti uppbyggingu ofanflóðavarna hratt
Í áskoruninni sagði meðal annars að undanfarna tvo áratugi
hafi verið unnið að uppbyggingu ofanflóðabarna víða á landinu. Það sé í samræmi
við stefnu sem mörkuð var eftir mannskæð snjóflóð á Flateyri og Súðavík 1995. Upphaflega
hafi verið markmiðið að ljúka þessari uppbyggingu á hættulegustu svæðunum fyrir
árið 2010. Markmiðinu var frestað til 2020 og þegar hópurinn sendi áskorunina
frá sér var fyrirhugað að fresta uppbyggingunni aftur, eða til ársins 2030.
Verkefni: Snjóflóðavarnir á Flateyri
Um þjónustu Verkís á sviði ofanflóðavarna
Frétt Verkís: Hægt að læra margt af flóðunum með nýrri tækni