Á fimmta tímanum í nótt barst lögreglu tilkynning um vopnaðan mann í miðborginni, sem var metin trúverðug og tekin alvarlega. Vegfarandi sagðist hafa heyrt á tali tveggja manna sem áttu í einhverjum útistöðum og að annar þeirra sagðist vera vopnaður og skildi vegfarandinn það þannig að um væri að ræða skotvopn.
Vegfarandinn var með greinargóða lýsingu á manninum sem átti að hafa vopnið undir höndum. Brugðist var strax við samkvæmt verklagi, en í því felst m.a. að kalla til vakthafandi lögreglumenn hjá sérsveit ríkislögreglustjóra. Fljótlega var maðurinn sem leitað var að staðsettur og höfðu lögreglumenn úr sérsveit afskipti af honum. Sá reyndist vopnlaus en í samtali við lögreglu viðurkenndi maðurinn að hafa látið þessi orð falla um vopnaburð í samskiptum við annan mann skömmu áður. Enginn var handtekinn vegna þessa. Haft var samband við forráðamann þess sem afskiptin voru höfð af, en viðkomandi hefur ekki náð 18 ára aldri.
Í einum fjölmiðlanna, sem hefur þegar fjallað um málið í dag, er birt mynd af tveimur sérsveitarmönnum og vikið að vopnaburði annars þeirra. Til upplýsinga skal tekið fram að um svokallaða höggboltabyssu er að ræða, en hún er í sama valdbeitingarstigi og lögreglukylfa.