Tilkynntu þjófnað á bílum sínum
Það getur verið ruglingslegt að hafa tvo bíla til umráða. T.d. þegar maður hefur lagt öðrum þeirra í bílastæði á meðan erindum er sinnt og kemur svo til baka á bílastæðið og heldur að maður hafi verið á hinum bílnum! Þetta gerðist einmitt um daginn og auðvitað í Hafnarfirði, nema hvað. Þá fór ónefndur maður í verslun Krónunnar, sem er við hliðina á lögreglustöðinni á Flatahrauni og þegar innkaupunum var lokið fann hann ekki bíllinn sinn og hélt að honum hefði verið stolið.
Maðurinn fór því á lögreglustöðina og tilkynnti um málið. Á vakt var gamalreyndur og skilningsríkur lögreglumaður sem komst að hinu sanna eftir smá þóf og maðurinn gat því snúið aftur í rétta bílinn og haldið sína leið. Rúmlega hálftíma síðar gerðist hið ótrúlega að annar maður kom á lögreglustöðina og tilkynnti að bílnum hans hefði einnig verið stolið.
Sá var víst líka búinn að ganga heillengi um bílastæðin við Krónuna í leit að bílnum. Honum var sögð sagan af fyrri manninum og þá rann upp ljós. Hann var sömuleiðis með vitlausa bíllykla í hendinni, leitandi að vitlausum bíl.
Lögreglumaðurinn sagði að fyrri maðurinn hefði verið útlendingur en sá seinni Íslendingur. Hann fullyrti jafnframt að mennirnir væru ekki Hafnfirðingar!