Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur veitt tveggja milljóna króna styrk til verkefnisins Taktu skrefið, sem er nýtt úrræði fyrir einstaklinga sem hafa beitt eða telja sig líklega til að beita kynferðisofbeldi og vilja leita sér aðstoðar. Slíkt úrræði hefur ekki verið til staðar hér á landi, nema fyrir börn og ungmenni, en verkefnið er að breskri fyrirmynd og að baki því standa fimm sálfræðingar sem búa yfir reynslu og þekkingu á þessu sviði.
Taktu skrefið hefur það að leiðarljósi að draga úr kynferðisofbeldi með því veita þeim sem hafa beitt aðra ofbeldi eða hafa áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni, hvort sem það er á netinu eða gagnvart öðru fólki, viðeigandi meðferð. Verkefninu var hrint af stað samhliða kynningum á aðgerðum stjórnvalda sem beinast að gerendum í ofbeldismálum en markmiðið er að byrja á að kanna eftirspurn eftir þjónustu af þessu tagi og þróa verkefnið frekar.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er afar mikilvægt að kanna eftirspurn eftir þessari þjónustu og fá umfangið upp á yfirborðið til þess að hægt sé að bregðast við og veita þessum einstaklingum viðeigandi aðstoð. Fyrirspurnir eru þegar farnar að berast sem segir okkur að það eru einstaklingar þarna úti sem vilja leita sér aðstoðar og það er mikilvægt að geta gripið inn í og boðið hjálp til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi hegðun og brot. Úrræði af þessum toga hafa gefið góða raun erlendis og ég bind miklar vonir við að það sama muni eiga við hér á landi.“
Anna Kristín Newton, sálfræðingur og einn af stofnendum Taktu skrefið: „Birtingarmyndir og afleiðingar kynferðislegs ofbeldis geta verið viðtækar og skiptir máli að þeir sem sýna af sér skaðlega hegðun fái viðeigandi aðstoð til að draga úr líkum að hún haldi áfram. Með stuðningi frá félagsmálaráðuneytinu er okkur gert kleift að taka okkar fyrstu skref í að byggja upp þjónustuna og gera hana sýnilega m.a. með uppsetningu vefsíðu sem mun innihalda fræðsluefni um skaðlega kynhegðun og hvert hægt sé að leita til að fá aðstoð.“
Þeir sem eru með áhyggjur af sinni kynhegðun og vilja leita sér aðstoðar geta sent tölvupóst á tölvupóstnetfangið taktuskrefid@taktuskrefid.is